Ís í krukku

Jamm allt er nú hægt. Nýlega deildi vinkona mín uppskrift á netinu með ís sem gerður er í krukku, eða Mason jar eins og þær eru kallaðar. Þetta eru háar krukkur með loki og fást víða. Ef þið eigið ekki krukku þá má að sjálfsögðu nota hrærivél og hefðbundið ísform.

Allavega, það eru ung hjón á síðunni www.ketoconnect.net sem sýndu frá þessari aðferð á vídeóbloggi sínu og þetta vakti athygli mína. Ég hef ekki verið mjög hrifin af ís, jú bragðarefur var sossum alveg í uppáhaldi en boy hvað ég fékk að finna fyrir því eftir á. Bæði mjólkin og allur sykurinn í namminu fór hrikalega í mig og oftast endaði ég í keng í sófanum. Ekki góðar minningar. En þetta langaði mig að prófa enda notaðar pekanhnetur í uppskriftinni sem eru mitt uppáhald. Ég aðlagaði uppskriftina að okkar mælieiningum og bætti aðeins í sumt og minnkaði annað. Þetta kom stórvel út og gaman að gera eitthvað svona fljótlegt. Svo má leika sér með bragðefni og það sem sett er í ísinn enda óteljandi uppskriftir til á vefnum af góðum ís.

Innihald:

 • 40 g fínmöluð sæta
 • 500 ml laktósafrír rjómi
 • 100 g pekanhnetur
 • 50 g ósaltað smjör
 • 1 tsk vanilludropar
 • 40 g súkkulaðibitar, má sleppa

aðferð:

 • Steikið fyrst grófhakkaðar pekanhnetur upp úr smjörinu og takið til hliðar þegar þær hafa brúnast aðeins.
 • Hellið hnetunum yfir í háa krukku sem er helmingi stærri en magnið af ísblöndunni.
 • Hellið rjóma og sætuefni ásamt vanilldropum saman við hneturnar og lokið.
 • Hristið nú krukkuna vel eða þar til það hættir að heyrast gutl í henni. Þetta getur tekið 1-3 mín.
 • Setjið krukkuna í frysti. Gott er að hræra í blöndunni eftir 1 klt og láta svo frjósa áfram í 2 klt lágmark.