Ísblóm með sultu

Hver man ekki eftir geggjuðu ísblómunum frá Emmess ís ? Með súkkulaðiskelinni og jarðaberjahlaupinu í miðjunni. Jæja ég varð að endurgera þessa snilld en auðvitað sykurlausa svo ég fór að brasa við þetta og með smá lagni þá náði ég að steypa þessi fínu ísblóm. Ég komst að því að þau eru best ef maður setur sultuna í rétt áður en ísinn er borinn fram og það var lítið mál, bara skafa innan úr miðjunni ,setja sykurlausa sultu í staðinn og flippa blóminu á disk. Fallegt að bera fram og gaman að borða.

innihald í 6-8 blóm:

 • 200 g sykurlaust súkkulaði, Cavalier 85% t.d eða Nicks mjólkursúkkulaði
 • 250 ml laktósafrír rjómi
 • 40 g Nick´s sæta 1:1 eða Sweet like sugar sætan
 • 40 g Sukrin Gold síróp
 • 4 eggjarauður
 • 1 tsk vanilludropar
 • Good good jarðaberja eða hindberjasulta

aðferð:

 • Bræðið súkkulaði yfir vatnsbaði. Penslið silikonform með súkkulaðinu, gott að hella súkkulaði í hvert hólf og pensla upp kantana.
 • Kælið örstutt í ískáp og penslið svo aftur því sem sest í miðjuna upp á hliðarnar. Það gerir þó ekkert til ef súkkulaðið hylur ekki alveg ísinn.
 • Frystið og útbúið ísinn sjálfan.
 • Þeytið eggjarauður,síróp, vanillu og sætuna saman þar til létt og ljóst.
 • Þeytið rjómann í annarri skál og blandið svo varlega saman með sleif.
 • Setjið ísinn í sprautupoka og sprautið í frosin súkkulaðiblómin. Frystið.
 • Daginn eftir er hægt að skafa upp úr miðjunni með teskeið og setja 1-2 tsk af sultu í staðinn.
 • Frystið í nokkrar mínútur og berið svo fram. Losið ísblómin varlega úr forminu og leggið beint á diska.