Ísform og jarðaberjaís

Hver man ekki eftir gamaldags ísréttinum með flodeskum og sultu, rjóma og ískúlum. Það er alveg hægt að komast nálægt þeirri nostalgíu með þessum brauðformum. Það þarf pínu þolinmæði ef þið ætlið að gera ísbrauðformin en vöffluskálarnar eru töluvert einfaldari í framkvæmd. Það sem þarf er vöfflujárn og innihald. Hér set ég svo með uppskrift af ís sem kom mjög vel út. Jarðaberjabomba samt ekki svo mörg jarðaber í honum og því ekki hár í kolvetnum.

Innihald vöfflur:

 • 140 ml kókosmjólk eða möndlumjólk fæst í Nettó t.d.
 • 80 g Sukrin Gold fínmalað
 • 60 g smjör
 • 2 stór egg, eða 1 egg og 40 g hvíta ef þið viljið enn stökkari kökur
 • 8 g Husk Powder, duft frá NOW
 • 70 g möndlumjöl
 • saltklípa
 • 1 tsk vanilludropar

aðferð:

 • Fínmalið sætuna, bræðið svo smjörið í potti og bætið sætunni saman við. Takið pott af hellu og látið aðeins kólna.
 • Hellið kókosrjómanum í pottinn og hrærið, því næst eggjunum og vanillu og pískið allt vel saman.
 • Endið á möndlumjöli, salti og husk og pískið mjög vel.
 • Látið deigið standa í 5-10 mín áður en það er bakað í vöfflujárni.
 • Ef þið gerið form þá er gott að setja álpappír utan um keilulaga hlut t.d . skrautjólatré haha og vefjið heitri vöfflunni utan um hvert tré og látið kólna.
 • Ef þið gerið skálar þá leggið þið vöffluna yfir desertskál á hvolfi og látið kólna. Þetta er auðvelt og látið vöffluna alveg kólna áður en tekin er af skálinni.
 • Best er að geyma formin í loftþéttum umbúðum og við stofuhita, þú mýkjast aftur við að fara í ísskáp og ekki setja í ofn því þá leka þau niður.
 • Nú má skreyta formin með ís, þeyttum rjóma, súkkulaði, karamellusósu, berjum eða bara því sem hugurinn girnist.

aðferð með Thermomix:

 • Fínmalið sætu í vél, 8 sek/ hraði 8
 • Bætið smjöri í eldunarskálina og hitið 4 mín / 100°/hraði 1
 • Setjið egg, kókosrjóma, vanillu, salt og þurrefni saman við smjörið og mixið allt á góðum hraða, 10 sek / hraði 7-8
 • Látið standa í 5-10 mín og bakið svo vöfflur til að gera skálar og form.

Jarðaberja ís:

 • 250 ml laktósafrír rjómi, má nota venjulegan
 • 40 g Fiber síróp glært, ég notaði það til að fá minna maple bragð
 • 40 g sæta, Nicks, Good good eða Sukrin Melis
 • 4 eggjarauður, 1 dl úr brúsa
 • 100 g frosin jarðaber, látið þiðna
 • 1 msk Sportdrykkur, Low Carb jarðaberja, má sleppa en gerir mikið bragð

aðferð:

 • Þeytið rjómann, ekki ofþeyta en ekki hafa hann of rennandi heldur, takið til hliðar
 • Þeytið nú síróp, sætu og eggjarauður saman þar til létt og ljóst, gott að þeyta vel og lengi.
 • Blandið sportdrykk og jarðaberjum saman og mæli með að mauka þetta saman í nutribullet eða Thermomix. Má líka stappa með gaffli.
 • Blandið nú öllu saman við rjómann, jarðaberjum og eggjablöndunni. Hrærið vel með sleif og veltið þessu saman svo loftið fari ekki úr blöndunni.
 • Frystið og berið fram eftir um það bil 5 klst eða sólarhring.
Sama uppskrift bökuð í formi frá Tupperware 10-15 mín á 200 ° hita með blæstri
Drykkurinn fæst t.d. í Systur&Makar.