Ísterta með súkkulaðibotn

Ég man nú ekki eftir að hafa legið í ístertunum hér í den en ég man hvað mér fannst góður botninn í þeim þegar ég smakkaði og þá sérstaklega þessum með áfengisbragðinu, gat skeð, eða mér finnst allavega eitthvað áfengisbragð vera af þeim í minningunni og einhverskonar harður núggatbotn eða pralín… En jæja hvað um það. Ég prófaði nýlega að gera eina útgáfu af ístertu með súkkulaðibrownie botni og brownie kurli. Hún kom ægilega fallega út og smakkaðist mjög vel en ég mun halda áfram að prófa mig áfram og reyna að finna út þetta bragð úr minningunni. Jafnvel geri ég aðra týpu með muldu kanilkexi sem ég bakaði í dag og langar að prófa sem botn.

Innihald botn:

 • 85 g súkkulaði sykurlaust

 • 60 g smjör

 • 80 g möndlumjöl

 • 10 g kókoshveiti

 • 2 egg

 • 1 tsk vanilludropar

aðferð:

 • Hitið ofninn í 175 gráður
 • Bræðið saman súkkulaði og smjör
 • Þeytið saman egg og sætu þar til létt og ljóst.
 • Bætið bræddu súkkulaðinu og smjöri við og þeytið áfram, þurrefnin fara næst saman við og vanilludropar.
 • Hellið deigi í hringlega form og bakið ca 22 mín.
 • Látið kökubotn kólna lítillega á meðan fyllingin er útbúin.

Ísfylling:

 • 500 ml rjómi, ég nota oftast laktósafrían,

 • 40 g sukrin gold síróp

 • 40 g Sukrin gold, púðursykursæta

 • 4 eggjarauður

 • 1 tsk vanilludropar

 • 1/3 af kökubotni, kurlað niður

aðferð:

 • Þeytið allan rjómann og takið helminginn til hliðar.
 • Þeytið eggjarauður, sætu og síróp saman í hreinni skál þar til þær eru ljósgular og léttar. Bætið vanillu við og helming af rjómanum sem var þeyttur í verkið. Blandið saman.
 • Kurlið niður 1/3 af súkkulaðibotninum og bætið saman við ísblönduna.
 • Takið restina af kökunni og brjótið niður í minni bita sem raðast í botn á springformi ca 20 cm. Þjappið og látið ekki sjást til botns. Hellið ísblöndunni yfir botninn og sléttið vel úr.
 • Að lokum er seinni helmingur rjómans settur í sprautupoka með fallegum stút og ískakan skreytt áður en hún fer í frystinn.
 • Þegar bera á fram er gott að fara með heitt hnífsblað allan hringinn á forminu meðfram kökunni og losa hana frá áður en formið er opnað. Skreytið með rifnu súkkulaði.