Jóla Bailys

Hún Dísa vinkona mín, ketógúrú og allt muligtkona sýndi á instastory #disa67 fyrir stuttu þessa frábæru aðferð við að gera Baylis án sykurs. Ég mæli með því að þið fylgið henni á insta, hún er alltaf að grúska eitthvað. Uppskriftina er upphaflega að finna á Youtube og ég ákvað að skella í einn skammt eftir að sjá hversu auðvelt þetta var hjá Dísu skvísu. Ég er reyndar ekki að drekka þetta árið allavega og veit því ekki alveg hvað ég er að spá en mér finnst reyndar geggjað að nota Beylis í jólamöndlurnar svo þarna sá ég leik á borði. Ég spurði systu hvaða viský væri málið og hún nefndi auðvitað einhverja týpu sem kostaði annað nýrað úr mér en það er allt í lagi, ég fæ nú eflaust einhverntíma fólk í heimsókn sem myndi vilja smakka Baylis, eða Irish coffee með Sukrin Gold, sem er sko miklu betra en púðursykurinn. En allavega ég breytti aðeins hlutföllum og notaði minna af sumu og bætti við karamellusírópi frá Torani. Þetta er hinn besti drykkur og eflaust góður sem slurkur út í jólakakóið eða yfir jólaísinn.

Innihald:

 • 50 g sæta fínmöluð sæta, Good good eða Sukrin Gold
 • 3 msk Torani karamellu sýróp ég notaði Salted caramel
 • 1 og 1/2 tsk kakó
 • 1/2 tsk neskaffi
 • 250 ml rjómi
 • 1/4 tsk möndludropar
 • 1/4 tsk vanilludropar
 • 100-120 ml whiskey, ég notaði Tullamore Dew

aðferð:

 • Setjið sætu,kakó, kaffi, síróp og 1 dl af rjóma í pott og hitið á vægum hita.
 • Bætið rjóma við hægt og rólega og látið malla í rólegheitunum.
 • Þegar allur rjóminn er kominn saman við þá má auka aðeins hitann þar til blandan fer að bubbla.
 • Takið þá pottinn af hellunni og bætið við dropum og wiskey. Hrærið og setjið í glerflösku sem kemst í ísskáp.