Jólabrauðstré

Það sem er helsti gallinn við brauðin á lágkolvetnamataræðinu er vöntun á þessu “brauð” bragði sem er þá yfirleitt gerbragð sem við tengjum helst við nýbakað brauð. Ég prófaði að gera fathead deig í dag og notaði pínu ger í það ásamt 1 tsk af hunangi til að kveikja í germynduninni og það var alveg geggjað. Gerið étur upp hunangið og sætuna og því ætti það ekki að hafa áhrif á blóðsykurinn. En fyrir þá sem eru viðkvæmir fyrir geri þá auðvitað sleppið því að nota. En hér er uppskriftin og útlitið er auðvitað fengið að láni hjá átrúnaðargoðinu Lindu Ben en hún var að sýna hvernig svona jólabrauðtré er gert. Ég reyndar þurfti ekki að fylla brauðið með ostum því deigið er nánast bara ostur, svo ég skar bara línur í það þegar ég hafði mótað deigið eins og jólatré og snéri upp á. Gott að nota olíu á puttana þegar verið er að vinna með ostadeig. Nota skal fínmalað möndlumjöl þetta fituskerta sem fæst frá Funksjonell. Þannig kom þetta allvega mjög vel út.

Ég prófaði að frysta brauðið beint úr ofninum og setti svo í ofn rétt áður en gestir komu og það kom vel út. Mætti líka frysta deigið útskorið og tilbúið og baka svo þegar hentar.

innihald:

 • 2 egg og 1 pískað egg til að pensla með
 • 50 g fituskert möndlumjöl Funksjonell, 10-30 g aukalega til að hnoða upp úr
 • 150 g rifinn ostur, t.d. mosarella og piparostur í bland
 • 125 g rjómaostur, má vera blanda af hvítlauksosti og venjulegum í bláu boxunum. Líka hægt að nota einungis hreinan rjómaost.
 • 1 kúfuð msk þurrger úr litlu bréfpokunum
 • 1 tsk hunang
 • 1 kúfuð tsk Xanthan Gum
 • 1/3 tsk gróft salt
 • krydd eftir smekk, t.d. Everything bagel kryddblanda

aðferð:

 • Blandið þurrefnum saman í skál og hrærið.
 • Setjið ostana í skál og hitið í örbylgjuofni eða í Thermomix þar til þeir hafa bráðnað vel saman.
 • Bætið þá eggjunum saman við og hunangi.
 • Hrærið vel áður en þurrefnin fara saman við svo engir ostakekkir séu í deiginu.
 • Hnoðið deigið vel saman og bætið við möndlumjöli eftir þörfum.
 • Ef notaður er rifinn piparostur eða aðrir harðir ostar þá verður deigið mýkra og meira fljótandi og þá þyrfti meira af möndlumjölinu.
 • Mótið nú útlínur á jólatréi og ég mæli með því að olíubera fingurnar áður.
 • Skerið línur inn að miðju en þó ekki í gegn sitthvoru megin við tréð og snúið svo upp á hverja “grein” alla leið upp á topp.
 • Penslið tréð með pískuðu eggi og stráið kryddið, sesamfræjum eða grófu salti eftir smekk.
 • Bakið í 200°C ofni með blæstri í ca 10-15 mín þar til gyllt og fallegt.

aðferð með Thermomix:

 • Setjið ostana í eldunarskálina, saxið 5 sek/hraði 6 ef það þarf og hrærið síðan, 4 mín / hiti 70° / hraði 2 eða þar til osturinn hefur bráðnað vel saman.
 • Bætið eggjum og hunangi saman við og hrærið áfram 1 mín / hraði 4
 • Þurrefnin, gerið, Xanthan Gum, möndlumjöl og salt fara næst í skálina og aftur hrært í 1 mín / hraði 4
 • Veiðið deigkúluna upp úr skálinni með sleikju, setjið á silikonmottu og hnoðið aðeins upp með auka möndlumjöli, gott er að nota olíu á fingurnar til að vinna deigið.
 • Fletjið út með fingrum og mótið útlínur á jólatré, skerið inn að miðju línur og snúið upp á hverja grein alveg upp á topp.
 • Pískið með eggi, kryddið og bakið á 200°C með blæstri í ca 10-15 mín.
gott að nota silikonmottu undir, þessi er frá Tupperwara og fæst hjá @twbjarney