Jólalurkur

Jólalurkur eða “Bûche de Noël” er desert sem gerður hefur verið til að heiðra minningu Jóladrumbsins eða trésins sem var brennt til að halda hita á húsum til forna. Þetta er mörghundruð ára hefð víða í Evrópu. Drumburinn var látinn loga 12 daga jólahátíðarinnar og ef hann kláraðist ekki þá var hann notaður til að kveikja upp í næsta drumb, jólin eftir. Miklar spekúlasjónir voru tengdar drumbnum og hjátrú sem var misyfirgripsmikil eftir stöðum. Desertinn er þekktastur í Frakklandi og Belgíu en hann er úr svampbotni, fylltur með rjóma og húðaður með súkkulaðikremi.

Innihald botn:

 • 6 egg
 • 100 g Sukrin gold, fínmalað
 • 40 g kókoshveiti, mæli með Funksjonell
 • 1/2 tsk lyftiduft
 • 1/2 tsk Xanthan gum
 • 2 msk kakó

Fylling:

 • 250 ml rjómi
 • 1 msk Sukrin Melis eða fínmöluð Good good sæta
 • 1 tsk vanilludropar
 • 2-3 msk karmellukurl, uppskrift “Hnetunammi”hér á síðunni en má sleppa

Krem:

 • 130 g sykurlaust súkkulaði
 • 40 g smjör
 • 4 msk rjómi
 • 140 g Sukrin Melis eða fínmöluð Good good sæta
 • 1 msk Sukrin Gold síróp

aðferð:

 • Þeytið saman egg og sætuna þar til létt og ljóst.
 • Bætið þá við þurrefnum en gott er að sigta þau ofan í eggjablönduna.
 • Hrærið varlega saman með sleif en passið þó að allt blandist vel við þurrefnin.
 • Hellið deiginu varlega á plötu með smjörpappír eða ofan í silikonmottu sem ég mæli með að eiga.
 • Bakið á 180° með blæstri í um það bil 12 mín eða þar til kakan er bökuð og hægt að snerta með fingrum á miðju, annars bakið örlítið lengur.
 • Hvolfið kökunni yfir á hreinan smjörpappír og losið gamla pappírinn frá kökunni.
 • Látið kólna örlítið, 5 mín kannski.
 • Þeytið rjómann í fyllinguna ásamt sætu og vanillu. Blandið karmellukurlinu saman við ef það er notað.
 • Dreifið fyllingunni á kökuna sem hefur kólnað örstutt og rúllið varlega upp. Kælið í ískáp í 30 mín til 1 klt.
 • Kremið: Hitið saman í potti á meðalhita, súkkulaði og smjör.
 • Takið pottinn af hitanum bætið sírópi saman við og rjóma og pískið saman. Hellið blöndunni í skál ásamt fínmalaðri sætu og þeytið þar til slétt og fellt.
 • Skerið nú lítinn part með skáa af rúllunni og staðsetjið á hlið rúllunnar. Látið sjást í endana á “drumbnum”
 • Smyrjið nú drumbinn með kreminu (ekki endana samt) og látið stífna aðeins áður en markað er í kremið með gaffli. Fallegt er að gera óreglulegar línur í kremið til að likja á eftir trjáberki.
 • Skreytið að vild, t.d. með rósmarín greinum, gervi sveppum og könglum, nema þið viljið reyna við marsipangerð. Að lokum má sigta örlitlum Sukrin Melis eða fínmalaðri sætu yfir lurkinn.