Jólamöndluterta með smjörkremi

Það er stórhættulegt að skoða Pinterest á kvöldin og skoða kökuskreytingar. Ég rakst nefninlega á eina fallega tertu sem var gerð úr 3 botnum, smjörkremi og svo ísformum sem var raðað hringinn í kringum kökuna og á toppinn með allskonar tilfæringum og svo var allt skreytt með grænu smjörkremi. Þetta fannst mér svo fallegt að ég gerði mína útgáfu. Ég bjó trén til úr marengs því ekki borða ég ísform og svo var hafist handa. Kökumixið frá Funksjonell kom sér vel og ég bakaði 3 litla botna til að ná góðri hæð á kökuna. Ég blanda alltaf sýrðum rjóma og bragðefnum í deigið og nú litaði ég hana líka fagurgræna. Þetta kom mjög vel út og er hin jólalegasta terta.

Innihald Botn:

 • 1 pakki gult Kökumix frá Funksjonell
 • 4 egg
 • 1 dl vatn
 • 1 dl olía, ég nota steikingarolíu frá Olifa
 • 1 dl sýrður rjómi
 • 1 msk möndludropar
 • 1 tsk – 1 msk grænn matarlitur

aðferð:

 • Þeytið saman öllu hráefni í kökuna. Deilið því í 3 form ef þið viljið gera háa köku og bakið í ca 20-25 mín.
 • Losið botnana frá formunum og skerið kúfinn ofan af hverjum botni.
 • Útbúið marengs ef þið viljið skreyta með jólatrjám.

marengstré:

 • 75 g glært Fiber síróp
 • 20 g eggjahvíta
 • 1 tsk fínmöluð sæta, Sukrin Melis t.d. eða Good good
 • 1/2 tsk vanilludropar
 • 1 tsk grænn matarlitur

aðferð:

 • Hitið yfir vatnsbaði, síróp, sætu og eggjahvítu.
 • Pískið og færið svo skálina í hrærivél, ég nota alltaf sömu skál og í Kitchenaid vélinni minni til að flýta fyrir.
 • Þeytið marengsinn þar til stífur, bætið við vanillu og matarlit og þeytið áfram þar til allt er fallega blandað.
 • Sprautið nokkrum trjám á smjörpappír, þarf ekki að vera fullkomið því smjörkremið hylur allt.
 • Gerið 4 tré sem standa en gott er að gera misstóra toppa, ég raðaði svo tveimur og tveimur saman.
 • Bakið í ofni 100°hita með blæstri í 2 klt.

Smjörkrem mætti gera 1 og 1/2 uppskrift:

 • 225 ml Fibersýróp glært
 • 3 eggjahvítur eða um 90 g úr brúsa
 • 80 g fínmöluð sæta, ég nota Good good
 • 250 g ósaltað smjör
 • 1/3 tsk salt
 • 1 tsk vanilludropar, eða bragð að eigin vali

aðferð:

 • Byrjið á því að setja upp pott með vatni og hitið. Setjið hrærivélaskál, gott að nota stálskál ef þið eigið slíka ofan á pottinn ( hafið pottinn það lítinn að skálin snerti ekki vatnið) og vigtið í hana sætu, sýróp og eggjahvítur.
 • Þeytið eða pískið saman þar til sætan hefur leyst upp í skálinni og blandan er hætt að þykkna.
 • Þurrkið nú skálina og færið yfir í hrærivélina. Setjið allt á fullan kraft.
 • Notið þeytarann á hrærivélinni.
 • Þegar marengs hefur myndast í skál og skálin orðin köld aftur eftir vatnsbaðið þá má setja smjörið saman við í litlum skömmtum.
 • Skiptið yfir í K spaða ef þið eigið slíkan eins og fylgir mörgum standandi hrærivélum því smjörið þeytist betur með honum. Smjörið á að vera kalt viðkomu en samt það mjúkt að það myndist dæld ef fingri er þrýst ofan í það.

 • Þeytið vel á milli hvers smjörbita og endurtakið þar til allt er komið saman við kremið.
 • Blandið næst bragðefnum við, t.d. vanillu og síðan salti og þeytið áfram.
 • Ef þið viljið lita hluta af kremi þá skiptið þið kreminu í skálar og blandið með matarlit.
 • Skreytið nú botnana með ljósu smjörkremi, takið hluta frá sem litaður er grænn.
 • Leggið marengstrén upp á hliðarnar á kökunni og skreytið með grænu smjörkremi.
 • Setjið tvö tré á toppinn og skreytið með kremi.
 • Fallegt er að strá fínmalaðari sætu yfir allt í lokin til að fá “snjó” effect á kökuna.