Já það getur verið æði erfitt að standast freistingarnar sem troðfylla alla verslunarganga um þessar mundir og langar mig bara að minna ykkur á að það er jafn mikill sykur í þessu jólanammi og allt árið um kring, ekki meira kannski en alls ekki minna.
Ef þú ert búin að taka út sykurinn og líður vel á líkama og sál þá bið ég þig um að hugsa þig tvisvar um áður en þú fleygir öllu út um gluggann og leggur heilsuna til hliðar fram yfir áramótin. Ég er sko aldeilis ekki að segja að það eigi ekki að njóta jólanna heldur gera það á þann hátt sem skilar sér í vellíðan yfir jólin en ekki uppþembdum maga, móral á sál og þreytusleni. Ég vil frekar eiga inni orku handa barnabarninu og hundinum og vakna hress og kát á jóladag.
Njótum, ekki bara hrjótum !!
Við getum vel notið jólanna með öllu því gómsæta sem er í boði bæði í mörgum verslunum og veitingastöðum og er laust við sykurdraslið. Uppskriftir með sykurlausum sörum, lakkrístoppum, lagkökum og kruðerí streymir um allar vefsíður og það er engin afsökun fyrir sukkerí AF ÞVÍ það eru jól framundan. Ég stórefast um að sykruðu konfektmolarnir smakkist vel í munni hjá þeim sem hafa losað út sykurinn í nokkurn tíma og því spyr ég afhverju að kasta árangrinum út um gluggann fyrir fjarlægja minningu og verða svo fyrir ægilegum vonbrigðum.
Ég ætla í það minnsta að taka að mér það hlutverk að vera leiðinlega sykurlöggan fyrir þá sem vilja hlusta á mig. Ég hefði aldrei trúað að ég myndi predika þessi fræði í dag á sama tíma og ég ryksugaði upp 200g Nóa Siríus stykki með karmellukurli án þess að blása úr nös. Ég áttaði mig sem betur fer og skv blóðprufum þá bendir allt til þess að ég hafi gert rétt.