Kaka ársins… eða konudagskakan kannski?

Enn ein áskorunin barst í hús og nú hvorki meira né minna en að endurgera köku ársins á sykurlausan máta! Hvað haldið þið að ég sé haha ? en jú jú ég reif upp svuntuna og hófst handa. Ég nýti auðvitað uppskriftir sem ég hef gert og blanda hinu og þessu saman og úr varð þessa fína terta með saltkaramellumús, marsipani, lakkrísbar frá Good good sem svínvirkarði í þessa köku og svo súkkulaðiganache sem ég hef oft gert til að skreyta kökur með. Þetta varð hin fínasta terta sem var étin upp til agna. Það þarf að gera hana kvöldið áður en hún er borin fram því músin þarf að stífna í kæli. En endilega hendið í eina svona bombu t.d. fyrir konudaginn og þið sláið í gegn.

Söltuð karamella:

 • 140 g sykurlaust Good good síróp
 • 15 g smjör
 • 100 g rjómi
 • 1 tsk sítrónusafi
 • 3 tsk vatn
 • 1 tsk vanilla
 • 1/2 tsk himalayasalt eða gróft sjávarsalt

Aðferð:

 • Hita allt hráefnið í potti í 30 mín á jöfnumhita, í hærri kantinum, bætið við 3 tsk vatn í lokin, hrærið og látið kólna.

Frönsk kaka í botninn:

 • 3 egg
 • 60 g Sweet like sugar sæta eða Sukrin Gold
 • 150 g sýrður rjómi eða grísk jógúrt
 • 30 g kakó
 • 1 tsk vínsteinslyftiduft
 • 1/4 tsk matarsódi
 • 1 tsk skyndikaffiduft
 • 1 tsk vanilludropar
 • 30 g möndlumjöl
 • saltkorn

aðferð:

 • Þeytið egg og sætu, bætið svo við sýrðum/grískri og þeytið áfram. Blandið næst þurrefnum saman við og blandan fer í hátt springform sem er um 21 cm í þvermál og um 7 cm hátt svo hægt sé að bæta við lakkrískurli, marsipan og karmellumúsinni ofan á.
 • Gott er að hafa smjörpappír í botninn. Bakið í 180° heitum ofni í 25 mín eða þar til hreinn pinni kemur úr miðju.
 • Kælið aðeins áður en millilaginu er stráð yfir.

Millilag:

 • 2 stk Good good lakkrísbarir niðurbrytjaðir
 • 50 g Sukrin marsipan niðurbrytjað

aðferð:

 • Skerið niður Good good barina og marsipanið og dreifið yfir kökubotninn. Útbúið næst músina.

Söltuð karamellu mús:

 • 240 g rjómaostur
 • 250 ml rjómi, þeyttur
 • 3/4 af karamellunni
 • 50 g fínmöluð sæta, t.d. Sweet like sugar möluð eða Sukrin Melis
 • 1 msk matarlímsduft eða 2 matarlímsblöð

aðferð:

 • Þeytið saman rjómaostinn og sætuna, bætið við karamellunni og þeytið áfram. Bætið nú við matarlímsduftinu, fæst frá Flóru eða notið matarlímsblöðin sem eru leyst upp í köldu vatni og síðan er vökvinn kreistur úr og þau hituð örstutt í örbylgjuofni eða yfir vatnsbaði.
 • Blandið að lokum rjómanum við og þeytið varlega saman þar til allt er slétt og fellt.
 • Hellið músinni yfir kökuna sléttið úr og skellið kökunni í kæli yfir nótt.

súkkulaðihjúpur:

 • 120 ml rjómi
 • 120 g súkkulaði sykurlaust, mæli með 85% Cavalier
 • 1 msk smjör
 • 1/4 af karamellunni

aðferð:

 • Hitið rjóma þar til fer að freyða og sjóða örlítið, hellið honum yfir niðurbrytjað súkkulaðið, bætið við karmellunni og smjöri og pískið þar til allt er slétt og fellt.
 • Hellið bráðinni yfir kökuna sem þarf að vera búið að losa úr forminu með hníf. Gott að hafa kökuna á grind með pappír undir svo súkkulaðihjúpurinn geti runnið óhindrað yfir kökuna.
 • Færið kökuna varlega á disk með góðum spaða og skreytið.
 • Skreytið td með niðurbrytjuðum Good good lakkrísbar og súkkulaði skrauti.
 • Kakan er best beint úr kæli með smá rjóma og nýuppáhelltu kaffi.
Sætan sem ég nota yfirleitt
það þarf ekki að skreyta frekar en maður vill en það er soldið gaman