Kanilkex, Lu, Haust, Graham.. !!

Ég átti í sérstöku sambandi við Haust kexið sem margir muna eflaust eftir og það fæst enn þann dag í dag. Ég kallaði það yfirleitt köflótta kexið og borðaði með smjöri og osti. Það er haframjölsbragð af því og smá sætur keimur en ég prófaði að gera eina uppskrift núna sem líkist þessu kexi ansi mikið. Ég notaði hinsvegar nýtt krydd sem ég var að kynnast en það kallast Mace, og er slíðrið sem umvefur múskathnetuna. Þetta slíður er svo malað niður og kallað Mace. Það er notað bæði í sæta og ósæta rétti, bakstur og vinsælt í indverskri matargerð. Það mætti nota eingöngu kanil í þessa uppskrift en mér fannst mace kryddið gefa þetta auka úmpf !!

Innihald:

 • 180 g möndlumjöl

 • 70 g Sukrin Gold

 • 2 msk brætt smjör

 • 1 tsk mace krydd, Kryddhúsið fæst í Fjarðarkaup

 • 1 tsk kanill, eða nota 2 tsk kanil ef þið eigið ekki mace

 • 1 tsk lyftiduft

 • saltklípa, gróft salt

 • 1 egg

aðferð:

 • Bræðið smjörið og setjið í skál. Blandið saman öllu nema egginu. Ég notaði matvinnsluvél en það má nota hrærivél líka.
 • Eggið fer síðast saman við og deiginu blandað vel saman.
 • Hellið deiginu á smjörpappír og leggið aðra örk yfir, fletjið út og fjarlægið pappír. Skerið í deigið rákir sem mynda ferninga, gott að pikka aðeins í kökurnar með gaffli.
 • Bakið í 20-25 mín á 150 gráðum með blæstri neðarlega í ofni. Fylgist með ef þær verða of dökkar og takið þá úr ofninum. Takið kökur úr síðan úr ofninum og brjótið kexið niður. Setjið kexið aftur í heitann ofninn og látið kólna í ofninum til að þær verði sem stökkastar.