Kanilsnúðar

Það er hægt að gera kanilsnúða á lágkolvetnamataræðinu. Hafa þá glúteinlausa og án sykurs en hér prófa ég þá með geri. Það er notuð 1 msk af sýrópi eða hunangi til að virkja gerið en skv fræðingum þá étur gerið upp sykurinn svo hann skilar sér ekki í kroppinn okkar. Þetta lyftir snúðunum betur og þeir verða “brauðlegri” Það mætti líka sleppa því og nota bara lyftiduftið en ég vil ekki fullyrða að þeir heppnist jafnvel. Ég notaði collagen prótein í þessa en það má eflaust nota annað bragðlaust prótein ef þið eigið.

Fyrir þá sem nenna að græja þessa uppskrift þá mæli ég alveg með henni, það er slatti af innihaldsefnum en ég fílaði snúðana vel. Ég fann þessa uppskrift upphaflega á síðunni gnom gnom og mæli með að þið skoðið þau.

Innihald snúðar:

 • 60 g sýrður rjómi
 • 1 msk hunang eða maple sýróp 15 g, gerið étur upp sykurinn
 • 1 msk þurrger 10 g
 • 3 msk volgt vatn 50 g
 • engiferduft 1/3 tsk
 • 220 g möndlumjöl
 • 45 g flaxseed mjöl eða 45 g fínmalað husk
 • 35 g collagen prótein eða annað bragðlaust
 • 5 msk sæta eða 50 g
 • 2 tsk lyftiduft
 • 2 1/2 tsk xantan gum
 • 1 1/2 tsk salt
 • 3 egg
 • 20 g brætt smjör
 • 1 msk eplaedik

aðferð:

 • Blandið saman öllum þurrefnum fyrir utan ger og engifer.
 • Hitið vatn og hellið yfir sýrðan rjóma og hunang. Ágætt að gera þetta í skál og fá hitann á blöndunni til að vera um 37° eða þannig að það sé hægt að dýfa fingri ofan í.
 • Blandið saman þurrgeri og engifer í skál og hellið volgu rjómablöndunni yfir. Látið standa í 10 mín.
 • Blandið næst eggjum og bræddu smjöri saman við gerið og hrærið vel.
 • Þetta fer svo allt í hrærivél ásamt þurrefnum og hrærið vel saman.
 • Breiðið plastfilmu á borðplötu, spreyjið með feiti og dreifið deiginu á filmuna. Það er gott að bleyta fingurnar úr vatni eða smjöri og þrýsta deiginu niður á filmuna.

Fylling:

 • 40 g smjör brætt
 • 4 msk sæta , 40 g
 • 2 msk kanill

aðferð fylling og snúðar:

 • Penslið smjörinu yfir deigið og dreifið kanil og sætu yfir allt.
 • Rúllið snúðunum upp og notið plastfilmuna til að hjálpa ykkur af stað.
 • Þrýstið samskeytunum vel saman á deiginu svo snúðarnir opnist síður í ofninum.
 • Skerið niður snúða í 1-2 cm þykkar sneiðar, notið bleyttan og beittan hníf í verkið.
 • Raðið snúðum á bökunarplötu leyfið þeim að hefast í 30-60 mín.
 • Bakið snúðana í 180° með blæstri í 10-15 mín.

Glassúr fyrir þá sem vilja:

 • 100 g rjómaostur
 • 40 g smjör mjúkt
 • 50 g fínmöluð sæta
 • 1 tsk vanilla
 • saltklípa
 • rjómi eða möndlumjólk til að þynna

Aðferð:

 • Þeytið öllu vel saman og smyrjið ofan á snúðana góðu. Þynnið með möndlumjólk eða rjóma ef þörf er á.