Karmellukaka með rjómaostakremi

Það eru ófáar uppskriftirnar frá Lindu Ben sem ég hef verið beðin um að snara yfir á sykurlausan hátt og hér er ein með karmellusósu og rjómaostakremi en í raun nota ég bara gamlar uppskriftir frá mér og set saman til að fá svipaða útkomu. Ég reyni að hafa uppskriftir nokkuð penar svo þær séu ekki of freistandi fyrir þá sem vilja fylgja sínum viðmiðum og því betra að tvöfalda ef þið eruð að baka fyrir stórar veislur t.d. Þessi hentaði okkur fullvel sem eftirréttur en við vorum um 6 í mat.

innihald:

 • 4 egg
 • 100 g sæta
 • 1 dl sýrður rjómi eða grísk jógúrt
 • 1 dl rjómi
 • 20 g bragðlaus kókosolía brædd eða smjör
 • 1 tsk lyftiduft
 • 1/2 tsk matarsódi
 • 50 g kókoshveiti
 • 1/2 tsk salt
 • 1 tsk vanilludropar

Karmella:

 • 100 g sykurlaust síróp
 • 50 g smjör
 • 1 tsk vanilludropar
 • 1/3 tsk salt
 • 2 dl rjómi

Krem:

 • 80 g sæta, t.d. Sukrin Melis
 • 125 g rjómaostur í bláu boxunum MS
 • 200 ml rjómi
 • 1/2 tsk vanilludropar

aðferð:

 • Hitið ofn í 170°
 • Þeytið egg og sætu saman, því næst rjóma, grísku jógúrtina, smjör/olíu og vanilludropana.
 • Bætið að lokum þurrefnum saman við. Látið deigið standa í smá tíma.
 • Hellið deiginu í eitt silikonform hringlaga, mér finnst gott að pensla aðeins botninn með kókosolíu svo kakan festist ekki.
 • Bakið í 20-30 mín á 170° hita. Látið kökuna standa í ofninum aðeins í lok bökunartímans svo hún nái að bakast í gegn. Hún fellur aðeins í miðjunni en það er í góðu lagi. Hún er mjúk og létt í sér.

karmella:

 • Hitið smjör og síróp, salt og vanillu saman í potti þar til það fer að krauma og brúnast örlítið. Ef notast er við Thermomix þá er gott að miða við 7 mín / 110 ° /hraði 1 án loks
 • Bætið rjóma saman við og hitið í pottinum þangað til sósan þykknar. Í Thermomix er hægt að stilla á 30 mín /115°/hraði 2 án loks
 • Gerið göt í kökuna með pinna og hellið um það bil helming af sósunni yfir kökuna. Eigið afgang til að skreyta með eða notið í annan bakstur.

krem:

 • Þeytið sætu og rjómaost þar til létt og ljóst.
 • Bætið rjómanum saman við og vanillu.
 • Þeytið fyrst varlega meðan rjóminn blandast rjómaostinum en síðan er þeytt áfram þar til allt er létt og ljóst.
 • Dreifið kreminu á kökuna og fallegt er að skera niður litla bita af Good good karmellustykkinu til að skreyta kökuna með.