Kimchi borgari og mæjó

Já það er merkilegt hvað þetta súrkál gerir okkur gott. Þarmaflóran okkar grátbiður um góðgerla til að við störfum sem skyldi og það hjálpar örverunum sem búa í þörmunum okkar að við innbyrðum góðgerla. Í súrkáli sem er sýrt á gamla mátann án aukaefna, sykurs og ediks þá myndast alveg gomma af góðum góðgerlum og því um að gera að hafa þetta grænmeti með í mataræðinu. Fyrir okkur ketóa þá er sýrt grænmeti einmitt sniðugt því góðgerlarnir éta upp sykrurnar í grænmetinu og gerir það kolvetnaléttara. Það vinna allir í þessum leik. Já talandi um leik þá var ég að henda inn leik í samstarfi við súrkál.is og hann má finna á instagramminu mínu #kristaketo það er til mikils að vinna, vöfflujárn frá Húsasmiðjunni, full karfa af súrkáli og skotum og svo allt hráefni sem til þarf í kimchi vöfflu og mæjó. Það er einmitt aðaluppistaðan í þessum einfalda rétti og ég set hér inn uppskrift.

Kimchiborgarabrauð fyrir 1:

 • 60 g rifinn ostur
 • 1 egg
 • 50 g Kimchi súrkál frá Súrkál fyrir sælkera
 • 20 g möndlumjöl
 • 1 tsk sesamolía, gerir ótrúlega mikið
 • 10 g púrrlaukur eða vorlaukur
 • sesamfræ til að dreifa yfir deigið

aðferð:

 • Hrærið saman öllu sem til þarf nema sesamfræjunum.
 • Hitið vöfflujárnið, mér finnst best að nota belgískt vöfflujárn.
 • Bakið tvö brauð sem henta fyrir einn borgara, nema þið notið bara eitt brauð undir hvert buff.
 • Dreifið kimchi mæjó á brauðin, setjið salatblað á brauðið og buffið.
 • Njótið í botn, þetta er mjög saðsamur réttur.

kimchi mæjónes:

 • 1 dl kimchisúrkál
 • 2 dl mæjónes

aðferð:

 • Einfalt og gott, maukið saman í matvinnsluvél, Nutribullet eða einhverju álíka, líka hægt að nota Thermo auðvitað eða töfrasprota.
 • Steikið hamborgara með smá kryddi og setjið á milli brauðanna.
 • Gott með öllu.