Kjúklingaborgari – Vinsæl

Já það er sko hægt að gera geggjaðan mat með raspi án þess að nota panko, hveiti eða orlýdeig og hér er einfaldlega notaður raspur úr lava cheese osti, parmesan og purusnakki sem öllu er mixað saman. Þetta var ótrúlega gott og bragðsterkt en þó ekki of sterkt krydd enda hentar það ekki öllum að hafa logandi spicy krydd á matnum sínum. Ég velti kjúkling upp úr mæjónesi sem var blandað með Kimchi súrkáli og það kryddaði kjötið hæfilega mikið. Ég bar svo fram sósu einnig úr sítrónusúrkáli og mæjónesi og þetta var geggjað ferskt og gott og rann ljúft niður í allan mannskapinn, ketóa og ekki. Mæli svo sannarlega með að prófa þennan, fituríkt rasp, gott prótein og bráðhollt súrkál fyrir þarmaflóruna og ónæmiskerfið.

Innihald:

  • 4-5 kjúklingabringur klofnar í tvennt

  • 1 hluti Kimchi súrkál, 2 hlutar mæjónes eða mæjones og sýrður rjómi saman. Ég notaði tæpan dl af kimchi og tæpa 2 af mæjó og sýrðum rjóma í bland

  • 1 pakki Lava cheese, chili 60 g

  • 60 g purusnakk Kims

  • 60 g parmesan ostur, Kirkland er góður í þetta

aðferð:

  • Skerið kjúklingabringur í tvennt eða kljúfið. Leggið í djúpa skál eða disk.
  • Blandið saman kimchi og mæjónesi/ sýrðum rjóma í blandara svo það verði slétt og fellt. Hellið yfir kjúklinginn og veltið kjúklingnum upp úr blöndunni. Geymið í kæli á meðan raspur er undirbúinn og meðlæti.
  • Malið niður purusnakk og ostasnakk þar til smátt, ég notaði Thermomix í nokkrar sekúndur en ef þið eigið ekki blandara þá er hægt að mylja með kökukefli og hafa snakkið í poka.
  • Þegar komið er að því að steikja kjúkling eða elda þá er bringunum velt upp úr raspinum og lagðar á smjörpappírsklædda grind. Ég nota grindur úr IKEA sem eru hugsaðar fyrir pizzur en það má nota hvað sem er. Það er líka hægt að elda kjúklinginn í Airfryer og ég lagði hann þá bara grindina en notaði lítinn bút af smjörpappír í botninn.
  • Eldið kjúklinginn á háum hita eða um 220° í 20 mín eða þar til hann er fulleldaður. Gott er að snúa bitunum við eftir rúmlega helming eldunartímans.

Sósan:

  • 1 hluti sítrónusúrkál

  • 2 hlutar mæjónes, fer eftir hversu stóran skammt þið viljið

  • 3-4 dropar stevía gerir mikið en má sleppa

aðferð:

  • Maukið allt vel saman í blandara þar til sósan er silkimjúk.
  • Gott að bera fram með kjúklingaborgaranum og smyrja á vöffluna sem ég nota undir.
Súrkálsmæjó

Vöfflur 2 stk:

  • 60 g rifinn mosarella ostur eða bland af mosarella og cheddar

  • 1 egg

  • 1 msk möndlumjöl

  • hvítlauksduft

Aðferð:

  • Blandið saman ostinum og egg, kryddi og möndlumjöli.
  • Hitið vöfflujárn, ég nota mitt belgíska þær verða svo stökkar og góðar þannig.
  • Bakið 2 vöfflur úr þessum skammti sem dugar alveg fyrir 2 manneskjur sem neðra brauðið en hægt að gera fleiri ef þið viljið.
  • Ég bar þetta fram með graskersfrönskum, sósu og hrásalati.