Kjúklingur í papriku og spínatsósu

Nú er ég búin að fasta í 3 daga og drekk eingöngu vatn, 3-4 kaffibolla og steinefni í vatn haha þetta er ákveðið próf á viljastyrk minn og hugsað sem endurræsing á kerfinu, ég vil með þessu hætta að drekka svart gos og borða minna á kvöldin, s.s. mögulega fara fyrr að sofa. Það er því búið að vera mjög fróðlegt að hugsa um hvaða rétt ég ætla að fá mér til að brjóta föstuna. Hrökkex með eggi er eitt sem mig dreymir um og svo kjúklingur í toscana sósu eða með rjóma, papriku og spínat. Allavega hér er uppskrift af þessum fína kjúlla, vonandi er hann eins góður í kvöld og ég ætla mér.

innihald:

 • 1 bakki kjúklingalæri
 • 1 tsk paprika duft
 • 1 tsk hvítlauksduft
 • 1 tsk salt
 • 2 msk smjör
 • 250 ml rjómi
 • 2-3 msk smátt skornir sólþurrkaðir tómatar
 • 2 hvítlauksgeirar smátt skornir
 • 100 g spínat

aðferð:

 • Hitið smjör á pönnu, kryddið kjúklingalærin með papriku, hvítlauksdufti og salti.
 • Steikið næst kjúklingalærin þar til þau eru brúnuð og nánast fullelduð. Takið upp úr pönnunni og setjið til hliðar.
 • Bætið við hvítlauk á pönnuna og látið mýkjast aðeins, þar næst rjómanum og að lokum sólþurrkuðum tómötum. Hrærið vel í sósunni og látið allt blandast vel saman og krauma í nokkrar mín á lágum hita.
 • Bætið nú spínatinu saman við og hrærið, að lokum fer kjúklingurinn aftur á pönnuna og látið hann fulleldast í sósunni góðu.
 • Þennan rétt er gott að bera fram með hvítlauksbrauði, blómkálsgrjónum eða kúrbítspasta en ekki hvað.

HVítlauksbrauð

 • 30 g möndlumjöl
 • 1 msk kókoshveiti
 • 1/4 tsk pipar
 • 1/3 tsk salt
 • 40 g eða 2 msk rjómaostur
 • 250 g mosarella 200 g í sjálft brauðið og 50 g ofan á brauðið
 • 30 g parmesan notað ofan á brauðið
 • 1 msk steinselja eða basilika
 • 1/2 tsk hvítlauksduft
 • 1/3 tsk oregano
 • 1 egg
 • bráðið smjör til að pensla með í lokin

aðferð:

 • Setjið 200 g mosarella og rjómaostinn í skál og hitið í örbylgjuofni 3-4 skipti eða í 30 sek hvert skipti.
 • Hrærið á milli atriða svo osturinn bráðni vel, hann á að vera fljótandi.
 • Setjið næst, eggið, möndlumjöl, kókoshveiti og krydd saman við og hrærið kröftuglega eða setjið allt í matvinnsluvél eða hrærivél og blandið þar saman.
 • Fletjið deigið út þegar það hefur kólnað örlítið á milli tveggja laga af smjörpappír og bakið í 5 mínútur í ofni á 220° hita.
 • Takið þá brauðið út og stráið restinni af ostinum ( 50 g ) og öllum parmesanostinum yfir. Dreifið örlítið af ferskri steinselju eða basiliku yfir og síðan bakað áfram í 3-4 mín. Skerið í sneiðar og njótið með góðum pottrétti t.d.
 • Gott að pensla yfir með bræddu smjöri í lokin eða nota hvítlauksolíu yfir allt brauðið.