Kleinur

Sko að gera kleinur úr möndlumjöli er alveg áskorun ! Það sem einkennir djúsí kleinur er hversu teygjanlegt og mjúkt deigið er svo hægt sé að móta þær og gera slaufur og fínerí áður en þær eru steiktar. Þetta er eitthvað sem möndlumjöl og kókoshveiti þekkja ekki því þar vantar glúteinið sem gerir mjölið teygjanlegt en bragðið af þessum kleinum sem ég gerði upp úr uppskrift frá Maríu á Paz var geggjað og smökkuðust þær alveg eins og kleinur eiga að gera, bara smá flatkleinur. Ég mana ykkur að prófa, þetta var ekki erfitt þótt útlitið hafi ekki verið upp á 20.

Ingredients

 • 250 g FITUSKERT möndlumjöl Funksjonell

 • 50 g kókoshveiti

 • 120 g sæta, Sweet like sugar t.d.

 • 5 tsk lyftiduft

 • 1 tsk xanthan gum

 • 1 msk huskduft, má sleppa en þéttir deigið aðeins

 • 1 egg

 • 50 g mjúkt smjör

 • 2.5 dl ab mjólk

 • 1 tsk kardimommudropar

 • 1 tsk vanilludropar

 • 1/3 tsk hjartarsalt

 • 1 kubbur palmínfeiti

Directions

 • Vigtið saman þurrefnin og blandið vel í hrærivél.
 • Hellið út í mjúku smjöri, ab mjólk, eggi og bragðdropum og hnoðið þar til deigið er samfellt.
 • Dreifið möndlumjöli á borð eða mottu og fletjið deigið út. Gott er að nota smjörpappír yfir og rúlla með kökukefli til að deigið festist ekki í öllu.
 • Skerið deigið í tígla og mótið eða snúið upp á hverja”kleinu”
 • Það er líka hægt að gera hálfgerðar pastaslaufur og þrýsta saman miðjunni. Tek fram að útlitslega verða þær ekki fullkomnar.
 • Hitið nú palmínfeitina í potti eða í djúpri pönnu og þegar deigbiti brúnast á innan við mínútu og sekkur ekki til botns þá er feitin klár.
 • Brúnið nú 3-4 kleinur í einu og veiðið svo upp á þerripappír.
 • Takk fyrir þessa uppskrift María Paz, ég veit að útlitslega er þetta engan vegin að ná lookinu en bragðið er mjög gott.