Kókosterta

Hugsa sér ef barnaafmæli væru algjörlega sykurlaus ! Hversu ljúf og notaleg væri slík veisla. Blóðsykurinn héldist jafn, næringarríkar og bragðgóðar veitingar væru í boði og foreldrar myndu taka við afslöppuðum og söddum börnum að afmæli loknu. Ég hef persónulega séð dönnuðustu prinsessur klífa veggi eftir eina sneið af súkkulaðiköku og efast um að niðursveiflan sé góð fyrir svona litla kroppa. Hér uppskrift af kókostertu sem enginn fattar að er sykurlaus. Hún hentar kannski betur fullorðna fólkinu en það er nú ágætt að þau haldi sínum blóðsykri niðri líka.

Innihald Botn:

 • 4 eggjahvítur eða um 120 g
 • 100 g fínmöluð sæta, Good good
 • 100 g kókosmjöl
 • 1/2 tsk vínsteinslyftiduft

aðferð:

 • Stífþeytið eggjahvítur og vínsteinslyftiduftið.
 • Bætið sætunni saman við og þeytið áfram þar til marengsinn er stífur.
 • Bætið kókosmjölinu varlega saman við og setjið næst deigið á bökunarplötu. Það er ágætt að strika hring á bökunarpappírinn til að afmarka stærðina á kökunni og sniðugt að nota form sem þið notið til að frysta efra lagið á kökunni í.Bakið í 45 mín á 100°hita.

Innihald toppur

 • 450 ml rjómi
 • 1 msk fínmöluð sæta
 • 1 tsk vanilludropar

Aðferð:

 • Þeytið rjómann með sætu og vanillu og færið rjómann í silikonform eða hringlaga tertuform með smjörpappír í botninn. Það mætti eflaust gera þetta fríhendis eins og kökubotninn en rjóminn gæti farið á flakk í frystinum.
 • Gott að frysta í nokkra klt áður en kakan er sett saman.

Krem:

 • Ein plata(85 g) af 85% súkkulaði, eða öðru sykurlausu súkkulaði
 • 50 ml rjómi
 • 1 msk smjör
 • 1 msk fínmöluð sæta
 • 1/2 tsk vanilludropar

aðferð:

 • Hitið rjómann í potti þar til hann fer að bubbla, en ekki bullsjóða.
 • Brjótið niður súkkulaði í skál ásamt smjörklípunni og sætunni.
 • Hellið rjómanum yfir súkkulaðið og látið bíða með loki yfir í 5 mín ca.
 • Hrærið nú vel saman uppleystu súkkulaðinu og bætið vanillu saman við. Hellið kreminu næst yfir kældan kókosbotninn.
 • Frosinn rjóminn fer þarnæst ofan á tertuna og síðan má skreyta með kókosflögum og rifnu súkkulaði að vild.
 • Kakan er góð þegar hún er búin að standa dálítið og rjóminn farinn að þiðna.