Kringlur

Saknar þú þess að fá þér nýbakaðar kringlur þegar krakkarnir koma með þær heim úr bakaríinu ? Ég er alveg sú týpa og elska kringlur með smurosti og kókómjólk. Ég elska kúmen alveg ægilega mikið og lyktin af nýbökuðum kringlum er ómótstæðileg. Ég prófaði mig áfram með nokkuð einfalda uppskrift sem virkaði vel og urðu kringlurnar stökkar að utan en mjúkar að innan. Beyglurnar með ostinum hafa orðið pínu seigar daginn eftir enda stífnar osturinn þegar hann kólnar en þessi uppskrift inniheldur engan ost, en aftur á móti notaði ég Feel Iceland collagenið í hana og það er geggjað í bakstur. Hver hefði trúað því að þorskroð kæmi vel út í kringlum haha en trúið mér þetta er snilld. Og ekki spara kúmenið ….

innihald:

 • 100 g möndlumjöl
 • 15 g collagen, Feel Iceland
 • 10 g HUSK duft ( Powder )
 • 1 msk eplaedik
 • 3 egg
 • 1 kúfuð tsk lyftiduft
 • 1/2 tsk salt, notaði Himalaya
 • 2 msk kúmen

aðferð:

 • Hrærið öllu vel saman í skál, fyrst þurrefnum og bætið svo eggjum og ediki saman við.
 • Látið deigið standa í 10-15 mín og setjið síðan í sprautupoka ef þið viljið sprauta kringlum á smjörpappír.
 • Það er líka hægt að baka einfaldar bollur úr þessu deigi.
 • Bakið í 20 mín við 180° hita með blæstri eða þar til kringlurnar losna af bökunarpappírnum og eru gylltar á lit.
 • Þessar eru æði með sveppasmurosti t.d.