Kúrbítssúpa

Ef ykkur langar í fljótlega og góða súpu sem hentar mjög vel á lágkolvetnamataræðinu þá mæli ég með þessari. Já það er kúrbítur í henni og ég held svei mér þá að ég sé að verða ofurástfangin af þessu grænmeti.

Súpan er trufluð með góðri slettu af ólífuolíu en ég nota BIO frá OLIFA í allt sem ég elda þessa dagana. Ég bar fram skonsurnar góðu sem eru hér á síðunni og þær smellpössuðu með þessari spicy og matarmiklu súpu.

Innihald:

 • 1/2 laukur eða um 40 g
 • 1 hvítlauksrif
 • 400 g kúrbítur, eða einn stór gaur
 • 400 ml vatn
 • 40 g rjómaostur
 • 15 g smjör
 • 1 súputeningur grænmetis
 • 1/2 tsk salt
 • pipar eftir smekk
 • olífuolía eftir smekk

aðferð:

 • Skerið lauka smátt og setjið í pott, bætið við smátt skornum kúrbít og vatni og hitið í 15-20 mín eða þar til allt er farið að sjóða.
 • Bætið við rjómaostinum og smjöri, kryddi og maukið súpuna með töfrasprota.
 • Gott að bera fram með ljúffengri ólífuolíu.

Aðferð með THermomix:

 • Setjið lauka í skálina og stillið á 3 sek / hraði 5
 • Bætið við vatni og kúrbít og stillið á 15 mín / 100° / hraði 1
 • Bætið næst við rjómaosti og smjörinu og stillið á 1 mín / hraði 0-8 farið rólega upp í 8
 • Kryddið súpuna ef þarf og berið fram með dreitil af ólíufolíu, mæli með BIO olíunni frá OLIFA.
Matarmikil og góð þessi aðeins úr kúrbít !!
Ótrúlega gott að hafa sætar skonsur með þessari.