Lakkrístoppar

Já blessaðir lakkrístopparnir, það er alltaf smá höfuðverkur að græja slíka en það er alveg hægt að gera góða lakkrístoppa ég sver það. Það er samt pínu erfitt að fá lakkrís sem er ekki með maltitoli svo ég nota bara lakkrísduft frá Epal sem gerir alveg heilmikið. Ég prófaði nokkrar týpur af marengs í þetta sinn og þegar ég notaði eingöngu sætu þá urðu þeir svolítið grófir og skildu eftir sig eftirbragð. Þegar ég notaði svo sírópið þá heppnuðust þeir betur. Ég ákvað að bræða súkkulaði og dreifa yfir kökurnar með pínu lakkrísdufti til að fá bragðið af lakkrís en þar sem ég er ekki mikið fyrir lakkrístoppa yfirhöfuð þá fannst mér það alveg vera nóg fyrir minn smekk. Þegar ég blandaði súkkulaðinu saman við í fyrstu tilraun og sprautaði toppunum á plötu þá féllu topparnir smá en um að gera að leika sér með þetta. Ég prófaði eina tilraun enn og velti brytjuðu súkkulaði saman við marengsinn og piparduftinu og það heppnaðist mjög vel að lokum svo endilega prófið. Muna bara að láta kökurnar kólna í ofninum og baka alltaf í 2 klt. 100 ° hita.

innihald:

 • 150 g síróp Fiber, má blanda ljósu og dökku
 • 1 eggjahvíta, sem er um 30 g
 • 1 msk fínmöluð sæta, Sukrin Melis, Good good eða Monkfruit
 • 1/2 tsk vanilludropar
 • 1 sukrin súkkulaðistykki
 • 1 tsk piparduft, fæst í Epal td.

aðferð:

 • Þeytið hvítuna, sírópið og sætu í stutta stund yfir vatnsbaði, ég nota yfirleitt bara Kitchenaid skálina mína, set yfir vatn í potti og píska saman. Færi svo skálina yfir í hrærivélina og þeyti vel saman.
 • Blandið vanillu saman við og þeytið áfram.
 • Setjið toppa á smjörpappír, ég fékk um 20 stk úr þessari uppskrift.
 • Bakið við 100° C með blæstri í 2 KLST. Ekki minna.
 • Látið toppana kólna alveg í ofninum áður en þið losið af pappír.
 • Bræðið súkkulaði og dreifið í mjórri bunu yfir kökurnar, stráið svo pipardufti yfir. Látið alveg kólna og þorna.
Hér er súkkulaðinu og piparduftinu blandað í marengsinn