Lambakjöt í kormasósu- vinsæl

Ég elska indverskt og hef áður talað um það, ég notast nú oftast við kjúkling í mínum indversku tilraunum en ég átti lambabita frá Kjötkompaní sem komu skemmtilega á óvart og ég útbjó þennan frábæra rétt sem ég studdist við af Cookidoo síðunni sem við Thermomix notendur höfum aðgang að. Ég skipti út því sem þurfti og bætti við aðeins af rjóma og rétturinn varð dásamlega góður. Sterkur og rjómakenndur í bland. Ég gerði einfalt og gott ostanaanbrauð með þessum rétt og blómkálsgrjónin góðu og lífið varð bara dásamlega gott.

Lambakorma:

 • 800-1000 g lambakjöt, í bitum

 • 2 gulir laukar litlir

 • 2 cm ferskt engifer eða 1 tsk af engifermauki

 • 1 solo hvítlaukur

 • 1 tsk chiliflögur eða 1 tsk Sembal olek chilimauk

 • 1 tsk salt

 • 2 tsk kóríander malað

 • 1/2 tsk kardimommur

 • 1 tsk cumin

 • 30 g olía eða ghee

 • 50 g Felix tómatsósa ( stevíu )

 • 1 msk tómatpúrra

 • 1 tsk Mace krydd frá Kryddhúsinu eða 1 tsk Garam Masala

 • 1 dl rjómi

 • 150 g grísk jógúrt

 • ferskt kóríander

aðferð í Thermomix:

 • Setjið 1 gulan lauk, engifer, hvítlauk, og öll krydd nema garam masala/mace í skálina og saxið 3 sek/hraði 7. Skafið úr skálinni í aðra skál og bætið kjötinu þar saman við. Plastið skálina og látið bíða í ísskáp í 1-2 klt.
 • Setjið hinn laukinn í skálina ásamt olíu/ghee og saxið 3 sek/hraði 5. Skafið niður úr hliðum og setjið lambakjötið í mareneringunni saman við. Setjið suðukörfuna ofan á lokið og stillið á 7 mín/120°/öfugan snúning á hraða 0.5
 • Bætið næst við garam masala/mace, tómatpúrru, tómatsósu, grískri jógúrt og rjóma og eldið 99 mín/90°/öfugum snúning á sleifarhraða.
  Berið fram með fersku söxuðu kóríander og smá grískri jógúrt, blómkálsgrjónum og naan brauði.

naan brauð með osti:

 • 200 g rifinn ostur

 • 1 kúfuð msk grísk jógúrt

 • 1 stórt egg

 • 60 g fituskert möndlumjöl eða 120 g hefðbundið

 • 1 tsk lyftiduft

 • Hvítlaukssmjör:

 • 2 msk smjör

 • 1/2 tsk hvítlauksduft

 • 1 tsk Herb de Provance eða steinselja

aðferð í Thermomix:

 • Blandið öllum hráefnum saman, hrærið í 4 mín/hiti 80°/ hraði 2
  Bætið svo í hraðann í lokin 20 sek / hraði 4
 • fletjið deigið út í 5 flatbrauð og leggið á bökunarplötu. Bakið við 180°hita í 15 mín ca. Penslið með bræddu smjöri og kryddum og bakið í 5 mín í viðbót.