Laufabrauð

Já allt er nú hægt, allavega reyndi ég og mín útfærsla kom bara vel út. Ég leyfði heimilisfólkinu að smakka og ættingjum og það voru allir sammála um að þetta væri alls ekki vont haha. Einn sagði þetta er eins og bökuð kartöflumús ! en hey kartöflur eru nú eitthvað sem við söknum stundum svo… en allavega þá er þessi uppskrift fín í grunninn ég notaði vel af kúmeni og steikti þær svo bara eftir hinum hefðubundnu laufabrauðskökunum. Mér finnst það mjög gott með smjöri og þetta er hið fínasta snakk. Það var ekki beint hægt að skera út flókin listaverk í kökurnar enda ekki nauðsynlegt að mínu mati. Meira spurning um stemminguna að fá stökkt og gott laufabrauð með hangiketinu.

innihald:

 • 100 g möndlumjöl fínmalað og fituskert, Funksjonell
 • 60 g macadamiur, malaðar, mætti líka notað meira af möndlumjöli í staðinn ef þið viljið sleppa hnetum
 • 20 g kókoshveiti
 • 1 tsk gróft salt
 • 1/2 tsk lyftiduft
 • 1 tsk Xanthan Gum, skiptir máli
 • 1 egg
 • 1 dl vatn
 • 1 dl rjómi
 • 5 g Pofiber eða Husk fínmalað
 • 2 msk kúmen

aðferð:

 • Malið allt mjöl/hnetur saman í matvinnsluvél. Blandið blautefnum saman við og hnoðið.
 • Látið standa í ískáp í nokkra klst. Helst yfir nótt.
 • Rúllið út deig milli tveggja laga af smjörpappír. Ef deigið er of blautt þá bætið þið við möndlumjöli. Reynið að ná deiginu eins þunnu og það leyfir. Það steikist betur þannig og verður stökkara.
 • Ef það er of þurrt þá aðeins meira vatn.
 • Þegar hægt er að rúlla út án þess að deigið festist við pappír þá er hægt að stinga út kökur, ég gerði ca 12-14 cm kökur í þvermál. Notaði barnaskál úr plasti sem var mjög þægilegt.
 • Skerið litla þríhyrninga í deigið og flettið yfir. Geymið hverja köku á smjörpappír þar til þær eru steiktar.
 • Steikið í olíu, má nota bragðlausa kókosolíu, avocado olíu, steikingarolíu OLIFA.
 • Ég fékk að skella mínum í palmín pottinn hjá hinum svona í þetta skiptið.