Lokum húsi og biðin eftir gluggunum

Það var strax í lok september sem við vorum klár fyrir klæðningu og glugga. Mest lá á að koma gluggum í húsið og þakpappa á þakið til að gera það vatnshelt fyrir veturinn sem var nú hálfpartinn mættur með tilheyrandi slyddu og kulda. Við vorum ótrúlega heppin með byggingastjóra í ferlinu sem gat bent okkur á áreiðanlega verktaka í þakdúkinn en við treystum okkur ekki sjálf í slíka vinnu og það munaði mjög miklu í verði milli fyrirtækja. Ég mæli alltaf með að fá nokkur tilboð og bera saman. Það þurfti sem fyrst að koma tvöföldu lagi af dúk á þakið, 200 mm steinull og svo bræða annað lag af dúk yfir allt. Atlas verktakar leystu þetta með glæsibrag og þá var hægt að fara í gluggamál, byrja að klæða og einangra veggi að utan. Við hjónin, synirnir og byggingastjórinn okkar dúndruðum minni gluggunum í sem komu í fyrri sendingunni og tókst þetta merkilega vel til enda vanir menn á ferð. Börkur vann lengi vel við að setja álglugga í hús og þekkti aðeins inn á ferlið en svo fengum við frábæra tilsögn.

Við höfðum farið nokkra hringi varðandi gluggaval en okkur langar auðvitað helst að sleppa við viðhald á húsinu um ókomin ár, allavega þau sem við verðum hér til að sinna húsinu og því völdum við álglugga með tré að innan. Svarta á litinn og þótt þeir séu svo það geti verið skelfilega skítsælt þá er það bara svo töff. IDEX flytur inn gluggana sem okkur langaði í en þeir heita Ideal Combi og fórum við meira að segja norður til Grenivíkur að skoða gluggana hjá vinafólki okkar sem var að byggja hús með sömu gluggum um sama leyti. Þetta er stór fjárfesting og er nánast helmingur af kostnaðinum sem fór í að kaupa sjálfar einingarnar í húsið svo það þurfti að vanda valið. Við vorum nokkuð ánægð með þjónustuna hjá IDEX, en vorum svekkt yfir töfum á stóru gluggasendingunni sem átti að koma strax í sept og kom þó ekki fyrr en í nóvember. En þannig er víst byggingarbransinn og maður þarf að gera ráð fyrir hinu versta. Þetta kostaði það að við þurftum að loka fyrir stóru götin með osb plötum sem kostuðu sitt og var sérstaklega erfitt að loka fyrir fallega útsýnið sem við vorum nýbúin að eignast með nýja húsinu. Ein hurðin kom brotin úr skipi en við ákváðum að vera með hefðbundnar svalahurðar, ekki rennihurðir og höfum ekki séð eftir því. Við fengum nýja hurð ekkert mál en allt tók þetta tíma.

Fyrirmyndin af efri hæðinni var unnin útfrá mynd sem við höfðum séð á Pinterest og við vildum ná þessu looki fram með svörtum gluggum, hvítum veggjum, gráum steyputónum og hlýjum við á eins nútímalegan hátt og unnt væri án þess að þetta yrði kuldaleg stofa. Gluggar spila mjög stórt hlutverk það verður að segjast og við erum mjög ánægð með val okkar. Glerið er líka með sólstoppi og tónninn mjög fallegur í því.

Við fengum Smákrana aftur til að hífa og gluggarnir fóru í einn af öðrum og tók 1-2 daga að fullklára.

Næst var komið að því að klæða húsið en við höfðum haft þann draum að nota íslenskt lerki utan á efri hæðina sem rættist því Skógarafurðir á Egilsstöðum gerðu okkur fínt tilboð í bandsagað efni sem við gátum valið og létum við saga það í 2-3 mismunandi breiddir. Aðallega til að hafa smá líf í klæðningunni. Við vildum enga reglu og smiðirnir sem við fengum í grindina, ullun og klæðningu gerðu þetta listavel. Þetta voru snillingarnir hjá Samsmíða sem gátu komið í þetta verkefni eftir hentugleika, veðri og vindum en það er mjög gott að geta hliðrað til ef veður er ómögulegt og fá því fulla nýtingu úr mannskapnum. Sumir dagar voru alveg ómögulegir og þá gátu þeir nýtt þá daga í innivinnu. Ég kann mikið að meta svona aðila og þeir stóðu sig eins og hetjur hér veðurbarnir allt fram að þorláksmessu svona með hléum.

Þegar kemur að því að spara í vinnukostnaði þá mæli ég auðvitað með að verkkaupar taki til hendinni og gangi frá og útrétti til að spara tíma sem annars er rukkaður af iðnaðarmanni. Þetta eru verk sem flestir ættu að geta, sópað, gengið frá verkfærum, skotist eftir nöglum og skrúfum og þessháttar. Það sparaði okkur í það minnsta þónokkra þúsundkalla.

Fyrst eru clt einingarnar vatnsvarðar með sérstökum dúk þar á eftir fer grindin utan á og svo ullin. Því næst fer svartur dúkur yfir ullina sem andar og þá var festa upp grannar lektur sem við máluðum svartar og að lokum fór lerkið upp.

Á meðan var verið að saga síðustu innveggina en MBrothers mættu í það verk og þá var hægt að opna almennilega á milli hæða. Þetta þurfti allt að ganga upp og skipuleggja því hver dagur skipti máli. Það vill oft eitt leiða af öðru og ef hlutirnir eru ekki gerðir í réttri röð þá fer allt í kássu. Við smíðuðum tímabundinn stiga milli hæða sem er næstum búið að skipta út í dag en ekki alveg og við fórum að sjá þetta myndast allt saman.

Það þurfti sér aðstoð til að koma þakglugganum fyrir og fengum við hann Vignir til að smella honum í. Hann var ótrúlega almennilegur og setti gluggann í á einum degi og hefur ekki lekið einum dropa meðfram honum 7,9,13 !!!

En ég læt þetta duga að sinni. Það er heilmikið eftir að gera og ég mun fara yfir málningu, eldhúsinnréttingu, tæki, fronta og gólfefnin í næsta pósti.