Marengs með sætuefni

Já þessi marengsbakstur getur verið flókinn og skiptar skoðanir um bragðið af honum og áferð. Sýrópsbotninn verður pínu teygjanlegur en sætuefnabotninn er lausari í sér og molnar mögulega meira. En það sem skipir mestu máli er að vera þolinmóður, útlitið er ekki allt og það er allt betra en bévítans sykurdrullan. Þessi marengsterta er með súkkulaðikremi og bragðast mjög vel en mæli með að nota Good good sætuna sem er blanda af erythritoli og stevíu og gefur ekki þetta ramma bragð eða kalda sem kemur stundum af sætuefni. Ef þið komist í Monk fruit sætu þá má nota hana líka.

innihald:

 • 4 eggjahvítur úr stórum eggjum eða 5 litlum
 • 150 g fínmöluð sæta, Good good eða sú sæta sem þú vilt nota
 • 1/2 tsk vínsteinslyftiduft eða cream of tartar
 • 1 tsk sítrónusafi
 • nokkur saltkorn

aðferð:

 • Hitið ofninn í 100° með blæstri.
 • Þeytið saman eggjahvítuna þar til toppar myndast.
 • Bætið fínmöluðu sætunni og vínsteinslyftidufti eða cream of tartar saman við í smáum skömmtum.
 • Farið varlega svo marengsinn falli ekki.
 • Bætið síðan við sítrónusafanum og salti og þeytið áfram.
 • Teiknið hringi á smjörpappír og sprautið marengs með sprautupoka á pappírinn, þetta er gert svo hann bakist betur og verði stökkari.
 • Bakið nú botnana í 1 1/2 klst – 2 klst og látið þá kólna í 1 klst í viðbót í ofninum.
 • Losið botnana næst varlega frá pappír og setjið vanillurjóma og jarðaber á milli. Gott er að hafa smá kókosflögur líka í fyllingunni.

krem:

 • 100 g sykurlaust súkkulaði
 • 30 g fínmöluð sæta Good good
 • 50 g smjör
 • 4-5 eggjarauður sem gengu af úr hvítunum

aðferð:

 • Bræðið smjörið, takið pottinn af hellunni, leyfið súkkulaðinu svo að bráðna í heitu smjörinu.
 • Þeytið vel saman sætu og rauður og blandið svo að lokum öllu saman við súkkulaðið. Hellið súkkulaðinu í mjórri bunu yfir tertuna þegar hún er saman sett.