Marengskrans

Enn og aftur kveikir Linda Ben í keppnisskapinu í mér en þegar ég sá myndina af marengskransinum hennar með Anthon Berg konfektinu þá var ekki aftur snúið. Ég varð að snúa þessum í sykurlausa útgáfu. Ég viðurkenni að ég gerði 3 mismunandi marengstilraunir og fleygði ansi miklu en að lokum komst ég niður á góða lendingu og heppnaðist kransinn fullkomnlega en ég valdi að gera tvo þynnri kransa í stað þess að moka of miklum marengs í haug því þá bakast hann ekki. Þetta snýst ansi mikið um þolinmæði og ást og ekki flýta sér of mikið í bakstrinum. Það er samt ekki flókið að setja kökuna saman þegar allt er komið svo ég mæli með að prófa.

Marengs:

 • 300 g síróp Fiber, ljóst
 • 2 eggjahvítur um 60 g
 • 1 msk fínmöluð sæta t.d. Good good eða Sukrin Melis, Monkfruit
 • 1/2 tsk vanilludropar

aðferð:

 • Þeytið hvítuna, sírópið og sætu í stutta stund yfir vatnsbaði, ég nota yfirleitt bara Kitchenaid skálina mína, set yfir vatn í potti og píska saman. Færi svo skálina yfir í hrærivélina og þeyti vel saman.
 • Blandið vanillu saman við og þeytið áfram.
 • Strikið hring um það bil 22 cm í þvermál á smjörpappír, gerið tvö blöð því það kemur betur út að gera tvo þynnri hringi.
 • Setjið marengs í sprautupoka og sprautið á víxl einskonar krossum á pappírinn og myndið kransa. Fyllið upp í þar sem eru göt og mótið kransana eins vel og hægt er með sprautustútnum.
 • Bakið á 90° með blæstri í 2.30 klt. Leyfið krönsunum að kólna alveg í ofninum áður en þeir eru teknir út.
 • Látið kransana kólna alveg í ofninum áður en þið losið af pappír.

Fylling:

 • 400 ml rjómi þeyttur
 • 150 g jarðaber
 • 1 tsk vanilludropar
 • 1 tsk sæta
 • 2 stk ( 1 dl ca) Nicks soft toffee súkkulaði ( kemur í janúar) eða Choco rite, Sukrin súkkulaði, Cavalier eða það sem ykkur langar í.

aðferð:

 • Þeytið rjóma ásamt vanillu og sætu.
 • Brytjið niður jarðaber og súkkulaði og blandið við rjómann.
 • Sprautið rjómanum með sprautupoka á neðri kransinn og setjið svo hinn kransinn ofan á. Sprautið afgangnum af rjómanum hér og þar á efri kransinn svo hægt sé að skreyta.

Sósa:

 • 2 Choco rite karamellustykki eða um 60 g sykurlaust súkkulaði
 • 2-3 msk rjómi

aðferð:

 • Hitið súkkulaðið og rjómann varlega í potti og þegar sósan er klár þá dreifið þið yfir marengsinn í mjóum taumum.
 • Skerið niður jarðaber og veltið upp úr sætu, stingið í rjómann hér og þar, fallegt er að skreyta með rósmarín greinum og ef þið hafið tíma þá er flott að steypa súkkulaðifrostrósir í formum og skreyta.
 • Ég prófaði að frysta kökuna í heilu lagi þegar hún var tilbúin og sé hvenig hún kemur út á laugardaginn fyrir afmælið. Kakan kom vel úr frystinum en ég myndi setja fersk jarðaber á hana og rósmaríngreinar rétt áður en hún er borin fram. Þegar berin þiðnuðu urðu þau pínu lin og leiðinleg. En allt annað kom vel út. Súkkulaði og fyllingin í góðu lagi.