Mokkarúlla

Til hamingju með daginn mæður allra landsmanna ! Ég vaknaði í morgun eftir ótrúlega velheppnaða endurfundi árgangsins 1973 úr grunnskólanum mínum kvöldið áður og í fyrsta sinn í langan tíma þá svaf ég út. Til 10 !! Ég opnaði facebook og sá auðvitað að það var mæðradagurinn í dag svo ég rauk til og henti mér í bakstur, en ekki hvað. Mig langaði að nota nýju Tupperware silikonmottuna mína sem ég var að fá mér svo ég ákvað að henda í súkkulaðirúllutertu. Mig langaði í eitthvað djúsí krem svo ég hrærði í mokkarjómaostafyllingu sem bragðast eins og kaffidraumur. Þessi er sniðug á veisluborðið og gott að frysta hana þegar búið er að rúlla upp. Þá haldast sneiðarnar betur saman. Mæli með þessari allan daginn. Fyrir þá sem ekki eru hrifnir af kaffi þá er hægt að gera smjörkremið sem er hér neðst og nota í staðinn sem fyllingu.

innihald botn:

 • 70 g sæta, fínmöluð
 • 140 g möndlumjöl fínmalað
 • 20 g Husk
 • 35 g kakó
 • 1 tsk lyftiduft
 • 1 tsk vanilludropar
 • 4 msk brætt smjör
 • 100 ml möndlumjólk ósæt
 • 80 g sýrður rjómi
 • 3 egg

aðferð:

 • Setjið þurrefni saman í skál
 • Hrærið vel saman og hellið blauta saman við, egg, möndlumjólk, smjöri, vanillu og sýrðum rjóma
 • Smyrjið deiginu á bökunarplötu, með pappír, eða notið silikonmottu með brún ef þið eigið slíka snilld
 • Bakið í 10-15 mín á 170° hita með blæstri

innihald fylling:

 • 2 eggjarauður
 • 160 g mjúkt smjör
 • 150 g rjómaostur
 • 120 g fínmöluð sæta
 • 1 tsk skyndikaffiduft
 • 1 espressobolli uppáhelltur

Aðferð:

 • Setjið fínmalaða sætu í pott ásamt kaffidufti og espresso bolla, látið suðuna koma upp og fylgist með sýrópi myndast í nokkrar mín.
 • Þeytið nú eggjrauðurnar þar til léttar, hellið þá sýrópinu í mjórri bunu saman við. Þeytið þar til freyðir.
 • Bætið smjöri við í litlum skömmtum og svo rjómaostinum.
 • Þeytið með K spaða ef þið eigið slíkan. Það munar miklu.
 • Ef kremið skilur sig og kurlast þá er hægt að taka fram hárblásara og blása á skálina með heitu þar til kremið blandast vel saman og verður silkimjúkt.
 • Dreifið kreminu á kökuna og rúllið varlega en ákveðið upp. Gott að pakka rúllunni inn í smjörpappírinn og frysta í ca klst eða lengur. Þetta er stór uppskrift af kremi svo það mætti alveg smyrja því utan á kökuna líka til að skreyta hana.
 • Skerið í fallegar sneiðar og berið fram með þeyttum rjóma.

Smjörkrem fyrir þá sem vilja frekar:

 • 250 g ósaltað smjör við stofuhita
 • 180 g fínmöluð sæta
 • 1 tsk vanilludropar
 • pínu klípa salt í lokin
 • súkkulaðibitar eftir smekk út í kremið