Mömmukökur

Ég fékk áskorun um daginn frá vinkonu að útbúa lágkolvetna mömmukökur, en hún saknaði þess að fá ekki eitthvað í líkingu við mömmukökurnar og sá hreinlega ekki fram á gleðileg jól án þess að því yrði bjargað. Ykkar manneskja tók áskoruninni og að mínu mati þá held ég að þessar komist nokkuð nálægt hinum upprunalegu þó svo að ég hafi aldrei verið mikið fyrir mömmukökur sjálf. Ég elska samt jólabragðið af þessum kökum og kremið á milli kom skemmtilega á óvart. Ég nota vörur frá Funksjonell í þessa uppskrift en það er nauðsynlegt að nota fituskert möndlumjöl sem er í grænu pokunum til að ná þeim stökkum og góðum.

innihald:

 • 100 g Sukrin sæta
 • 200 g Fibersíróp Gold
 • 125 g smjör
 • 1 egg
 • 150 g fituskert möndlumjöl Funksjonell
 • 30 g kókoshveiti Funksjonell
 • 2 tsk matarsódi
 • 1/2 tsk engifer
 • 1 tsk negull
 • 1 tsk kanill

aðferð:

 • Hitið sætu, síróp og smjör í potti á vægum hita. Kælið örlítið og blandið egginu saman við og hrærið.
 • Blandið síðan þurrefnum saman við og hnoðið vel saman.
 • Setjið filmu yfir skálina og geymið deigið yfir nótt í ískáp.
 • Fletjið deigið út eins þunnt og hægt er og notið kókoshveiti á borðið ef það er of klístrað. Þetta krefst þolinmæðisvinnu en er þó lítið mál ef vandað er til verks.
 • Skerið út hringi eða önnur form og flytjið yfir á smjörpappírsklædda plötu.
 • Best er að baka þessar í ca 15 mín á 160° hita með blæstri en passið að þær dökkni ekki allt of mikið. Takið svo úr ofni og látið kólna.

Smjörkrem á milli:

 • 100 g Sukrin Melis
 • 1 eggjarauða
 • 75 g saltlaust smjör
 • 2 msk rjómi
 • 1/3 tsk vanilluduft eða 1 tsk dropar
 • 4 dropar stevía bragðlaus

aðferð:

 • Þeytið sætu og eggjarauðu saman þar til létt og ljóst. Bætið síðan við við smjöri, rjóma og vanillu.
 • Setjið kremið á milli tveggja helminga af kökum þegar þær hafa kólnað alveg.
 • Þessar kökur geymast vel í ískáp í lokuðu boxi en það má einnig frysta þær, gangi ykkur vel með það.