Möndluterta með rjóma og karamellusósu

Fyrir þá sem eru ekki miklir bökunargúrúar en langar í smá sætu öðru hvoru með kaffinu þá er þessi kaka mjög einföld. Sumir elska hnetusmjör en maðurinn minn t.d. er ekki eins hrifinn svo ég notaði möndlusmjör í kökuna og skreytti með rjóma og karamellusósu. Ég get alveg mælt með henni fyrir þá sem vilja fljótlega kökusneið.

Innihald:

 • 2 egg
 • 100 g sæta, t.d. Nicks eða Sweet like sugar
 • 2 msk möndlusmjör MONKI eða MONKI hnetusmjör fyrir þá sem þola jarðhnetur
 • 50 g smjör mjúkt
 • 20 g möndlumjöl
 • 5 g kókoshveiti
 • 1 tsk lyftiduft
 • 1 tsk kakó
 • 1 tsk vanilludropar
 • 1/5 tsk salt
 • 30 g sykurlaust súkkulaði niðurbrytjað, en bara val, má sleppa

aðferð:

 • Hitið ofn í 180 ° með blæstri
 • Þeytið saman smjör og sætu vel og lengi
 • Bætið möndlusmjöri eða hnetusmjöri saman við og þeytið áfram.
 • Bætið við eggjunum og þeytið þar til degið er létt og ljóst.
 • Þurrefnum og vanillu (súkkulaðibitum ef þeir eru notaðir) er næst bætt saman við deigið og því smurt í 25 cm- 30 cm form, deigið er ekki mikið svo minni form koma betur út.
 • Látið deigið bíða í forminu í ca 15 mín og bakið svo, mjölið virðist draga betur í sig rakann og kakan lyftist betur.
 • Bakið kökubotninn í 20-25 mín og látið kólna.

Toppur:

 • 200 ml rjómi, þeyttur

karamellusósa:

 • 20 g smjör
 • 50 g sýróp dökkt Fiber, sykurlaust
 • 1/2 dl rjómi
 • 1/2 tsk vanilludropar

aðferð:

 • Hitið smjör og síróp saman í skaftpotti og látið sjóða í nokkrar mín
 • Bætið rjómanum við og hrærið, lækkið hitann og sjóðið niður
 • Þegar sósan er orðin fallega karmellulituð þá má taka af hellunni
 • Hellið í mjóum taumi yfir rjómann á kældri kökunni, kælið eða berið strax fram.
 • Hægt að skreyta með jarðarberjum, hnetukurli eða hindberjum ef þið viljið