Morgunklattar

… eða kvöld, hádegis, helgar.. hvað sem er þessir eru fljótlegir og góðir undir áleggið þitt. Ég hef gert kotasæluklatta í gegnum tíðina sem eru mjög vinsæl LKL uppskrift á norðurlöndunum en fannst þeir alltaf heldur súrir svo ég ákvað að nota sýrðan rjóma og dálítið af kókoshveiti til að sæta þá og halda þeim betur saman. Þetta kom ljómandi vel út og minnir mig á litlu flatkökurnar sem amma steikti fyrir okkur á jólunum með hangikjötinu. Ok kannski ekki alveg eins en ef þú lokar augunum og ímyndar þér þá eru þeir nánast eins. Mér reiknast til að hver lumma sé 1 netcarb og þá er ég að miða við 4 lummur úr uppskriftinni. Það þarf ekki að sæta þessa uppskrift nema þið viljið heldur sæta útgáfu þá mætti setja smá vanillu og fínmalaða sætu saman við. Næst mun ég prófa að setja eina skeið af Collageni saman við deigið því það má endalaust leika sér með þessar.

Innihald:

  • 80 g sýrður rjómi 36%
  • 1 msk HUSK
  • 10 g kókoshveiti, um 1 kúfuð tsk
  • 1 egg
  • salt og pipar
  • 1 tsk sæta og nokkrir dropar vanilla ef þið viljið, má sleppa

aðferð:

  • Hrærið innihaldinu saman í skál látið deigið standa í 1-2 mín
  • Hitið pönnu með avocado olíu eða smjöri og steikið 4 lummur.
  • Þessar eru góðar bæði heitar og kaldar.