Uppskriftin af einföldum bollum hefur fengið yfirhalningu en hún Sigrún vinkona mín sem fylgir mér á instagram hefur verið að prófa sig áfram þar sem hún borðar ekki hnetur og skipti út möndlunum fyrir fleiri fræ. Brauðið er ægilega gott og ég mæli með því að prófa. Ég prófaði líka að skipta út kotasælunni fyrir hreint skyr svo endilega prófið það líka. Net kolvetnin í brauðinu öllu eru um 18.5 sem dreifist niður á sneiðarnar sem fást úr því. Látið endilega deigið standa í 30 mín áður en það er bakað. Brauðið minnir á normalbrauð þar sem kókoshveitið gerir það sætt og það er góð skorpa sem kemur á það. Ekkert aukaefni, allt hráefni sem fæst hér á landi og ekkert vesen 🙂
Innihald:
30 g kókoshveiti FUNKSJONELL
1 kúfuð tsk lyftiduft ( helst vínsteinslyftiduft án hveitis )
30 g graskersfræ
50 g sólblómafræ
15 g hörfræ
15 g gróft HUSK
1 tsk kúfuð gróft salt
150 g rjómaostur
100 g kotasæla eða hreint skyr
3 egg
aðferð:
- Malið saman mjölið og fræin, ég blandaði öllum þurrefnum bara saman og malaði í Nutribullet eða Thermomix.
- Þeytið nú egg, rjómaost og kotasælu/skyr þar til létt og ljóst og bætið svo þurrefnum saman við.
- Látið deigið standa í brauðform ( ekki stóru formi heldur frekar stuttu ) og látið hvíla í 30 mín. Dreifið smá fræjum ofan á toppinn.
- Hitið ofninn í 200 gráður og bakið í 40 mín á blæstri neðarlega í ofni.