Ný Sigga !

Ég þekki konu sem ég kynntist fyrst í gegnum móður mína en við Börkur vorum stundum send til hennar með grein af ílex frá mömmu fyrir jólin og vorum síðan send til baka með heimagert konfekt í skál. Þessi kona heitir Sigríður Gunnlaugsdóttir og leiðir okkar lágu saman aftur þegar hún fór að venja komur sínar í verslunina Systur & Makar. Hún var byrjuð að snúa við blaðinu hvað varðar mataræðið og ég sá hana hreinlega yngjast og verða heilbrigðari fyrir framan mig í hvert sinn sem hún kíkti við í búðinni. Mig langaði að taka lítið viðtal við þessa frábæru konu og hún leyfði mér að birta af sér nokkrar myndir sem sýna vel árangurinn sem hún hefur náð.

Hver er konan?


Sigríður Ólöf Gunnlaugsdóttir, 64 ára, eiginkona, móðir og amma. Grunnskólakennari til margra ára.

Hefur þú prófað marga mismunandi kúra eða breytt um mataræði á lífsleiðinni?


Ó já hvort ég hef. Ég hef í gegnum tíðina prófað ýmislgt, súpukúrinn, fannst nú súpan mjög góð alla jafna en dálítið tilbreytingalítið mataræði til langs tíma. Ég prófaði geimfarafæðið og var meira að segja söluaðili fyrir það í dálítinn tíma. Það fannst mér ágætt en eins og með svo margt annað var það bara skammgóður vermir og kílóin helltust yfir mig þegar ég fór að borða venjulegan mat. Ég hef talið kaloríur frá því að ég man eftir mér. Ég hef alltaf þurft að passa mataræðið, hef rokkað til og frá í kílóatölu. Það sem allir þessir kúra hafa átt sameiginlegt er að ég hef rokið upp í þyngd um leið og ég hætti á þeim og bætt frekar við ef eitthvað er.

Hvernig dastu inn á Ketó mataræðið og hvenær?


Ég hafði fylgst með þér María Krista, frá því þú gafst út bókina þína Brauð og eftirréttir Kristu og svo á Instagram. Einnig hafði ég kynnt mér Ketó á ýmsum vefsíðum og fylgst með umræðunni um þennan lífstíl t.d. á dietdoctor.com
Ég hef alltaf átt í erfiðleikum með sykurinn, er mikill súkkulaði aðdáandi. Í desember 2018 var ég stödd erlendis og varð mjög veik daginn sem við vorum að fara heim. Við heimkomu var ég orðin það illa haldin að ég fór á Bráðamóttökuna og lá þar í 2 sólarhringa. Þegar niðurstaða var komin um hvað amaði að mér var ég send heim. Ég var mjög illa á mig komin fram í janúar 2019 og hafði ekki nærst að neinu viti. Þegar ég fór að neyta fæðu aftur ákvað ég að taka út sykur, hveiti og ger. Ég fann hversu vel mér leið líkamlega og andlega og ákvað þá að fara alla leið á Ketó.

Hvað var erfiðast við að byrja?


Í rauninni var ekki svo erfitt að byrja á Ketó. Ég byrjaði náttúrulega fyrst á LKL og fór svo alla leið á Ketó því mér fannst það liggja beinast við þegar ég fann muninn á líðan minni.

Hvað hefur ketómataræðið til að bera fram yfir annað?


Mér liggur við að svara „allt“. Við eldum alltaf allan mat frá grunni og höfum reyndar alltaf gert að flest öllu leyti. Við notum ferska vöru en það sem hefur breyst er notkun á olíum og fitugjöfum hefur aukist mikið. Að vera laus við pasta og hrísgrjón úr eldamennsku finnst mér vera frábært. Máltíðir eru léttar, mér líður betur finnst ég ekki vera pakksödd endalaust og svo hef ég ekki þessa endalausu þörf fyrir að vera að borða.

Er eitthvað sem þú saknar frá fyrra líferni?


Í rauninni ekki. Þegar ég lít til baka þá er ég fyrst og fremst þakklát fyrir að hafa ratað inn á þessa braut og lít á Ketó sem lífstíl en ekki kúr.

Hvernig mælir þú árangurinn þinn og hvað myndir þú segja að skipti mestu máli hvað hann varðar?


Ég mæli árangurinn fyrst og fremst í betri heilsu. Ég hef farið í blóðprufur í tvígang eftir að ég byrjaði á Ketó og í bæði skiptin voru niðurstöður betri en nokkru sinni fyrr. Ég er léttari á mér enda hef ég misst 40 kg. frá því í desember 2018. Ég á auðveldara með að hreyfa mig bæði geng ég mikið og hleyp. Ég hef stundað föstur samhliða þessari breytingu á lífstíl og hentar það mér mjög vel.

Hvað hefur breyst á heimilinu síðan þú breyttir um lífstíl?


Það hefur nú ýmislegt breyst. Maðurinn minn hefur fylgt mér í þessari vegferð og hefur ekki síður haft mikinn áhuga á ketómatargerð. Við verslum náttúrulega eingöngu matvæli sem falla að þessum lífsstíl og eldum eingöngu ketófæði . Við bökum brauð, hrökkbrauð og muslí sjálf og sælgæti er eitthvað sem við verslum aldrei. Börnunum okkar líkar vel það sem borið er á borð, öllu fæði snúið upp á ketó. Fjölskyldan tekur virkan þá í þessu með okkur þó svo allir séu fluttir að heiman.


Stefnir þú að því að viðhalda þessum lífstíl til frambúðar?

Já svo sannarlega. Ég óska þess að falla aldrei af þessum vagni. Ég sakna einskis og finnst ég hafa fengið svo margt gott í sambandi við úthald, heilsu og svo er þetta bara svo skemmtilegt.

Uppáhaldsréttur/uppskrift?


Mitt uppáhalds meðlæti er (fyrir 2-3):
½ kúrbítur í sneiðar,
½ eggaldin í sneiðar,
1 spönsk paprika, skorin í stóra bita
1 rauðlaukur skorinn gróflega
Nokkur hvítlauksrif (magnið fer eftir skapinu þann daginn)
Olifa, Dop olía (hellingur)
Gróft salt, pipar, chilli, origano, rósmarin (eftir smekk)

Allt grænmetið grófskorið og sett í eldfast mót, olíunni hellt yfir og kryddað.
Baka við 200°C í 15-20 mínútur.
(Stundum set ég blómkál, rósakál, hvítkál, sveppi o.s.frv. eða það sem til er í grænmetisskúffunni
)

Einhver lokaorð?


Ég vil hvetja þá sem vilja prófa þennan lífstíl að gera það. Þetta er ekki flókið, margir halda að það sé svo mikið bras við þetta mataræði en það er það alls ekki. Meira að segja bauð pabbi minn, sem er 92 ára, mér í hádegismat um daginn og hafði eldað handa mér ketósveppasúpu og keypt ketóbrauð til að hafa með henni. Ég fór í hádegisverð í dag á veitingastað í Reykjavík og ég gat valið úr réttum af matseðli og gert þá ketóvæna bara með því að fá aðeins meira salat og sleppa kartöflunum.

Bætt heilsa, meira úthald, mýkri húð, betri blóðstatus, allt svo miklu betra, bónusinn er að missa öll þessi kíló.

Svo er þetta bara svo skemmtilegt!