Ostakaka með hlaupi

Þessi ostakaka er ótrúlega einföld og ég birti uppskriftina fyrir löngu á blogginu hjá okkur systrum á sínum tíma sem og á gamla blogginu mínu. Hér er hún komin í örlítið uppfærðri útfærslu. Hún er fersk og góð og mjög einföld í gerð. Ég einfaldaði meira að segja aðferðina og held það sé alveg eins gott.

innihald botn:

 • 100 g möndlumjöl, ég notaði frá NOW

 • 40 g brætt smjör

 • 50 g salthnetur eða makadamiuhnetur

 • 30 g Sukrin gold

aðferð:

 • Malið gróflega mjöli og hnetum saman ásamt sætu.
 • Bræðið smjör í potti og hellið síðan hnetumylsnu saman við. Látið brúnast stutta stund og dreifið mylsnunni í lítið springform ég notaði ca 22 cm í þvermál. Það má líka nota annarskonar form fyrir þessa köku t.d. eldfast form. Kælið. Ég var vön að baka botninn en þess er ekki þörf í rauninni ef þið hitið mjölið í pottinum.
 • Næst er að blanda fyllinguna

fylling:

 • 400 g rjómaostur

 • 1 peli rjómi ( 250 ml ) léttþeyttur

 • 4 lítil blöð matarlím

 • 100 g fínmöluð sæta, ég nota Good good

 • 1 tsk vanilludropar

aðferð:

 • Leggið matarlím í bleyti í kalt vatn. Ég notaði áður matarlímsduft, það fæst hinsvegar ekki lengur svo ég notaði matarlím í staðinn.
 • Þeytið rjómann létt. Takið til hliðar. Þeytið næst rjómaostinn ásamt sætu og vanillu og blandið síðan við rjómann.
 • Takið matarlím úr bleyti, nóg að hafa í 5-10 mín, hitið hlaupið í örbylgjuofni í stutta stund eða yfir vatnsbaði og blandið saman við rjómablönduna.
 • Hellið fyllingunni yfir botninn og kælið. Næst er að gera toppinn.

Innihald toppur:

 • Sykurlaust jell-o ég hef keypt í Hagkaup, hindber, kirsuberja eða jarðaberja

 • 250 ml kalt vatn

 • 250 ml soðið vatn

 • hindber að jarðaber, fersk eða frosin

aðferð:

 • Leysið duftið úr jello-inu upp í heitu vatni, bætið síðan köldu vatni við og látið kólna aðeins áður en hellt er yfir kökuna.
 • Dreifið berjum yfir kökuna og hellið síðan kældum vökvanum yfir allt. Kælið aftur þar til kakan hefur stífnað.
 • Berið fram á heitum sumardegi og allir verða svo glaðir.
 • Ef þið fáið ekki Jelló þá er hægt að gera þessa útfærslu á toppinn. https://mariakrista.com/sumardesert-med-hindberjahlaupi/