Ostakex úr óðalsosti í Thermomix

Það er svo gott að fá sér stökkt og gott kex undir brie ostinn og ekki verra að baka hann aðeins í ofni, það sama er hægt að gera við camembert eða hvern annan hvítmygluost sem þið elskið mest. Mér finnst æði að bæta við nokkrum pekanhnetum þegar nokkrar mín eru eftir að hituninni og svo toppa allt með fiber sýrópinu góða þessu dökka. En að uppskriftinni, ég henti í ostakex í kvöld sem er ægilega gott en það gerir Ísbúinn sem ég notaði en hann er passlega bragðsterkur og saltur til að gefa gott bragð og heppnaðist kexið fullkomnlega. Kexið er alveg eggjalaust.

Ég notaði Thermomix til að rífa niður ostinn og blanda við möndlumjölið og ég þurfti ekkert að hita deigið eða bræða því krafturinn í vélinni náði að mýkja allt vel upp. Ef þið notið rifjárn eða annað tól þá má setja deigið í nokkrar sek í örbylgjuofn og þá verður það meðfærilegra í útflattningi.

innihald:

  • 250 g Ísbúi
  • 100 g möndlumjöl
  • 2 1/2 msk gróft husk eða 2 1/2 tsk fínt husk
  • saltklípa
  • 1 msk kúmen

aðferð með Thermomix:

  • Rífið ostinn niður með Thermo 20 sek/ hraði 7, blandið möndlumjölinu, husk og kryddi saman við og blandið vel saman 10 sek/ hraði 7
  • Hellið mylsnunni á bökunarplötu/ silikonmottu eða smjörpappír og leggið aðra örk yfir. Þrýstið út deiginu og skerið niður í ferninga eða þríhyrninga.
  • Bakið við 180° hita með blæstri í 10-15 mín
  • Látið kexið kólna vel og brjótið svo niður í kex.