Ostakúla, eða ostatré

Ostakúlur eru alveg snilldarfyrirbæri, fljótlega að undirbúa daginn áður en partý er haldið og bara æðislega góðar. Stundum er verið að nota döðlur og beikon og hunangsristaðar hnetur en í þessari var ég bara með rjómaost, papriku, blaðlauk og mexíco ost og hún var alveg þrælgóð. Ég var að halda jólaboð og því steypti ég kúluna ofan í silikonform, jólatré og dreifði pekanhnetum í botninn svo þær huldu kúluna þegar henni var hvolft úr forminu. Gaman að skreyta jólalega og bara namm.

innihald:

 • 1 askja blár rjómaostur
 • 1 hringlaga mexicoostur
 • 3-4 msk smátt skorinn blaðlaukur
 • 1 lítil gul paprika
 • 1 rauð paprika
 • 1 msk sítrónusafi
 • 1 msk Worchestersósa
 • salt og pipar
 • 3-4 msk muldar pekanhnetur til að setja í botninn á forminu eða húða með ef þið gerið kúlu.
 • sykurlaust síróp dökkt, svona í lokin

aðferð:

 • Rífið niður mexico ostinn og blandið við rjómaostinn, maukið þetta saman í matvinnsluvél eða hrærivél ég notaði Thermomix.
 • Blandið smátt skornu grænmetinu saman við og sítrónusafa og worchester sósu.
 • Smakkið til með salti og pipar, ath að laukbragðið verður meira daginn eftir svo ekki setja of mikið af blaðlauk.
 • Myljið hneturnar smátt og dreifið í botn á silikonformi sem er klætt með plastfilmu, það er betra upp á að ná ostinum upp.
 • Þrýstið næst ostablöndunni í formið og lokið fyrir með plastfilmu.
 • Geymið ísskáp yfir nótt, allavega nokkra klt.
 • Hvolfið svo forminu á fallegt fat eða ostabakka, skreytið með rósmarín og trönuberjum og í lokin dreifði ég smá sykurlausu fibersírópi yfir allt tréð.
 • Þetta er gott að bera fram með ostakexinu góða. https://mariakrista.com/ostastangir-eda-kex/
Fallegt að bera fram svona ostakúlu
Hnífasettið fékkst í Nettó sem og bakkinn