Ostastangir eða kex

Jæja enn berast beiðnir um yfirfærslur á hefðbundnum jólahefðum yfir í lágkolvetna útgáfur og ein sendi mér póst um ostakex sem amman í fjölskyldunni bjó alltaf til, mjög einföld uppskrift, ostur, smjör og hveiti með smá rjóma.. þetta var bakað í ofni útflatt og væntanlega nartað í bara í jólapartýum. Það var nú ekki mjög flókið að breyta þessari en aðalvandinn hjá henni var að kexið molnaði. Það er í raun alltaf hægt að bjarga því með Xanthan gum sem er eins og lím fyrir bakstur og kemur í staðinn fyrir glúteinið sem er einmitt hálfgert lím í brauði og kökum. Ég notaði svo fínmalað fituskert möndlumjöl enda er fitan í smjörinu og ostinum alveg nóg og þetta heppnaðist mjög vel. Ég gerði svo ostakúlu sem ég verð með í staffapartýi í kvöld og lookar þetta allt bara mjög flott.

innihald kex:

  • 100 g fituskert möndlumjöl Funksjonell
  • 125 g smjör mjúkt
  • 125 g rifinn sterkur ostur, gouda kom vel út og eflaust ísbúi og tindur gætu virkað eða cheddar fyrir mildara bragð
  • 1 tsk Xanthan Gum, nauðsynlegt
  • 1 msk rjómi

aðferð:

  • Hrærið allt saman þar til hægt er að hnoða upp kúlu. Ég setti mitt í Thermomix á smá hita þar sem ég hafði ekki beðið nógu lengi eftir smjörinu en ef smjörið er orðið mjúkt þá er þetta ekkert mál.
  • Fletjið út deigið skerið í tígla, ég notaði kleinujárn í verkið og bakið á smjörpappír á 180° hita með blæstri í ca 10 -15 mín þar til kantar byrja aðeins að gyllast, ekki samt ofbaka.
  • Látið kexið kólna og berið svo fram með ostakúlu, brie eða salati. Líka gott að narta bara í þetta eintómt, og hundurinn ELSKAR þetta líka.
Plís má ég fá eitt ?