Ostavöfflur, allir að gera þær

Já það grípur um sig svona æði öðru hverju í ketóveröldinni og núna eru ostavöfflur eða “Chaffles” vinsælar, cheese+waffles. Þetta er í raun mjög einfalt og fljótleg uppskrift sem breyta má eins og maður vill. Ég gerði 3 mismunandi útfærslur, bæði með möndlumjöli og án, með vanillu og sætu og svo eina sterka sem gæti hentað vel fyrir fahitas eða mexícorétt. Þessar venjulegu eru góðar í brunch undir “gufusoðið egg” eða t.d. undir hamborgarann, nota sem pizzubotn með smá oregano í deiginu eða hreinlega gera samloku með skinku og osti úr vöfflunum. Hægt er að bæta við hvítlauksdufti eða hvítlauksmauki og gera hvítlauksbrauð, já bara hvað sem er.

Ostavaffla sem er fín í brunch:

 • 60 g rifinn ostur, mosarella, cheddar, ísbúi
 • 1 egg
 • 1/3 tsk laukduft
 • svartur pipar eftir smekk
Sistema vörurnar fást í Nettó

Gufusoðið egg í sistema boxi:

 • Takið eitt egg og setjið í sistema boxið góða, setjið nokkra dropa af vatni með í boxið og hafið ventilinn opinn á loking.
 • Hitið í 45 sek og látið boxið svo hvíla í 30 sek.
 • Salt og pipar og egginu skutlað ofan á vöffluna.

aðferð við Bakstur:

 • Hrærið með gaffli eða setjið í nutribullet.
 • Hellið deiginu í vöfflujárn, skiptir ekki máli hvernig járn er notað, hefðbundið eða belgískt vöfflujárn.
 • Látið brúnast og þegar vafflan kólnar þá stökknar hún.
Borið fram með grískri jógúrt, skyri eða rjóma og smá slettu af sírópi, sykurlausu.

Sæt vaffla:

 • 1 egg
 • 60 g rifinn mosarella
 • 1/3 tsk lyftiduft
 • 1 tsk sæta, Sweet like sugar, Nick´s eða Sukrin
 • 1/3 tsk vanilludropar
 • kanill á hnífsoddi, má sleppa

Spicy Vaffla:

 • 1 egg
 • 60 g rifinn ostur, mosarella, cheddar, ísbúi
 • 1 msk möndlumjöl
 • 1/2 tsk chilikrydd
 • 1/2 tsk cumin

Fleiri hugmyndir:

 • Það er hægt að gera heilan helling við þessar vöfflur, bæta beikonbitum í deigið, kúrbít, skinku, eða öðru grænmeti.
 • Fyrir sætu útgáfuna mætti setja 1/2 tsk af kakói saman við.
 • Ég mæli með að þið bakið litlar vöfflur því þær stækka vel og geta flætt yfir barmana á vöfflujárninu. Gerið frekar tvær litlar í belgísku járnunum t.d.