Páskaegg með Dulche de leche

Já flókin fyrirsögn ! En Dulche de leche er suðuramerískur desert eða sósa sem er í grunninn, hægsoðin mjólk og sykur með smjöri. Til að gera þetta lágkolvetna þá notaði ég rjóma, smjör og sætu frá Nicks sem er 50% Erythritol og 50% Xylitol. Með því að nota xylitol þá kristallast karmellan ekkert og helst mjúk og fín bara eins og fylling í Rolo. Hver elskar ekki Rolo ? Páskaformin fékk ég í Allt í köku en það má líka nota hefðbundin konfektmót, það er bara svo gaman að gera spes konfekt fyrir páskana sko.

innihald:

 • 140 g Nicks sæta 50/50 eða nota xylitol og erythritol t.d. frá NOW
 • 70 g smjör
 • 450 ml rjómi

aðferð hefðbundin:

 • Hitið allt saman í potti í 50-60 mín á meðalhita þar til úr verður þykkt mjólkursíróp. Það er ljósgult á litinn og á að þykkna aðeins.
 • Setjið blönduna í lítið eldfast mót og lokið með álpappír.
 • Setjið mótið í stærra eldfast mót, hellið sjóðandi vatni allan hringinn og eldið í ofni á 210°hita í 75 mín.
 • Karmellan verður þá gullinbrún og þykk.
 • Geymið karmelluna í lokuðu íláti, geymist nokkuð vel í kæli en er best við stofuhita.

aðferð með Thermomix:

 • Hitið allt saman í Thermomixskálinni með þeytaranum, 60 mín / 110°hiti / hraði 3 ( ekki hafa mæliglastappann í ) þar til úr verður þykkt mjólkursíróp. Það er ljósgult á litinn og á að þykkna.
 • Setjið blönduna í lítið eldfast mót og lokið með álpappír.
 • Setjið mótið í stærra eldfast mót, hellið sjóðandi vatni allan hringinn og eldið í ofni á 210°hita í 75 mín.
 • Karmellan verður þá gullinbrún og þykk.
 • Geymið karmelluna í lokuðu íláti, geymist nokkuð vel í kæli en er best við stofuhita.

Bræðið sykurlaust súkkulaði( ég nota 85% cavalier ) þar til súkkulaðið nær 45°. Penslið form að innan með súkkulaði og látið storkna í kæli, endurtakið ef þarf til að fylla upp í göt. Fyllið þá eggin með mjúkri karmellunni og kælið aftur. Lokið svo eggjunum eða konfektinu með meira súkkulaði. Frystið eða kælið þar til allt er orðið stíft. Súkkulaðið er svo best við stofuhita því þá er karmellan mjúk innan í egginu.