Páskaegg með kókosfyllingu

Já hví ekki fyllt páskaegg um páskana. Núna flæða páskaeggin um allar hillur í stórmörkuðunum og erfitt fyrir marga að standast freistinguna. Það er gaman að gera sitt eigið egg og eftir margengstilraunir síðustu daga þá datt mér í hug að gera kókosbollukrem úr sýrópinu góða sem kom ótrúlega vel út. Sem fylling í páskaegg, krem á köku og bara í ótrúlegustu hluti. Það væri líka hægt að baka þetta krem og búa til kókostoppa. Það er hægt að fá falleg plastmót í Allt í köku hér. Þessi uppskrift dugði í 4 millistór egg og 8 lítil.

innihald:

 • 110 g ljóst sýróp Fiber
 • 1 eggjahvíta
 • 40 g fínmöluð sæta, Good good í blender eða nota Sukrin Melis
 • 50 g kókosmjöl
 • 1/2 tsk vanilluduft

Aðferð:

 • Byrjið á því að píska eggjahvítu, sætu og sýróp í hrærivélaskál yfir vatnsbaði.
 • Þegar blandan er farin að þykkna aðeins og hvítna þá má færa skálina yfir í hrærivél og þeyta í nokkrar mínúturu eða þar til þykkt marengskrem myndast.
 • Bætið þá við 50 g af kókosmjöli og vanilludufti og blandið varlega saman með sleikju.
 • Setjið fyllinguna í sprautupoka og takið til hliðar.

Innihald páskaeggja:

 • 200 g sykurlaust súkkulaði, Cavalier 85% t.d. eða dökkt Choco perfection sem er geggjað í þetta.
 • páskaeggjamót, fást í Allt í köku

Aðferð:

 • Hitið súkkulaðið yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni. Passið að ofhita ekki súkkulaðið en best er að ná því hitastiginu 45° sem kallast að tempra.
 • Smyrjið súkkulaðinu með bökunarpensli í mótin eina umferð og kælið.
 • Gott er að taka aðra þunna umferð í mótin áður en fyllingin fer í og kæla aftur.
 • Sprautið næst fyllingunni í og dreifið úr. Frystið í nokkrar mínútur.
 • Hitið súkkulaðið aftur upp og hellið yfir fyllinguna svo eggjahelmingurinn lokist. Kælið eða frystið og hinkrið eftir að eggið stífni, ég veit það er erfitt að bíða.
 • Takið næst eggjamótin úr kæli og losið varlega eggin úr forminu.