Piparmyntu börkur

Hér er mín útgáfa af piparmyntu berki sem er blanda af dökku, ljósu súkkulaði og svo piparmyntubrjóstsykur yfir eða Bismark eins og flestir þekkja. Uppskriftin af brjóstykri má finna hér á blogginu. Ég mæli með því að nota Cavalier hvítt súkkulaði ef þið komist í slíkt en annars má nota kókosolíublönduna mína hér að neðan.

Innihald:

 • 200 g súkkulaði, Cavalier eða annað sykurlaust
 • 180 ml kókosolía bragðlaus, brædd
 • 3 msk Sukrin Melis
 • piparmyntukurl eftir smekk

aðferð:

 • Best þykir mér að brjóta niður eða saxa brjóstsykurinn smátt og sigta fínasta duftið frá í skál. Ég nota það út í súkkulaði eða kókosolíublönduna til að fá enn meira mintubragð af namminu.
 • Hitið dökka súkkulaðið næst yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni. Dreifið því í silikonmót eða álform með smjörpappír. Kælið í ískáp ekki frysta.
 • Ef þið fáið hvítt súkkulaði þá má nota það í verkið, sama aðferð og með dökka súkkulaðið, passið bara að hella ekki of heitu súkkulaði yfir dökka lagið.
 • Ef þið notið kókosolíu frekar þá hitið þið hana þar til hún er fljótandi. Bætið þá við Sukrin melis og fína duftinu af brjóstsykrinum. Ef súkkulaðið er orðið stíft þá má hella olíublöndunni yfir en passið samt að olían sé ekki of heit, 37 gráður er fínt, líkamshiti, s.s. puttatest.
 • Setjið blönduna aftur í ískáp en bíðið ekki lengi því það þarf að dreifa brjóstsykrinum yfir áður en olían harðnar, þó ekki setja of fljótt yfir því þá sekkur kurlið ofan í olíuna. Bara spurning um mínútur.
 • Þegar kurlið er komið á má setja nammið í frysti í nokkrar mín.
 • Skerið eða brjótið í óreglulega bita og njótið.