Píta með buffi í Thermomix

Það ganga um allskonar uppskriftir að ketóbrauðum sem fara misvel í landann enda oft erfitt að þola eggjabragðið, möndlu eða kókoskeiminn í flestu því brauðmeti sem er í boði fyrir okkur glútein- og kolvetnalausa fólkið. Glútein er mikilvægur partur í áferð brauða og þegar það er ekki til staðar þá þarf að nýta sér Husk, egg og mjöl í staðinn sem koma ALDREI alveg í staðinn fyrir gamla góða súrdeigsbrauðið eða samlokubrauðið úr Myllunni. Ég hef aðeins leikið mér með Collagen í bakstur og notaði einmitt hér en það má sleppa því. Gerði samt mikið og brauðið varð stökkara að utan og svona rismeira.

Hér er ágætis tilraun til að gera Pítubrauð en þessi uppskrift kemur úr bókinni minni Brauð og eftirréttir Kristu. Ég bætti við smá Herb de Provance kryddi til að líkja meira eftir pítu en einnig er hægt að nota sömu uppskrift við hamborgarabrauð og setja þá frekar sesamfræ ofan á brauðin. Inni í pítunni er svo steikt hamborgarabuff, salat, rauð paprika, smá rauðlaukur, rifinn ostur og pítusósa. Það má svo alltaf leika sér með innihaldið hér, allt smekksatriði.

InNihald:

 • 100 g möndlumjöl H- berg t.d.

 • 1 msk hörfræmjöl ( NOW Flax seed )

 • 2 msk Husk duft, fínmalað

 • 1/2 tsk salt

 • 6 dropar bragðlaus stevía

 • 2 stór egg

 • 170 g sýrður rjómi, 18% t.d. eða grísk jógúrt

 • 1 tsk vínsteinslyftiduft

 • 1 msk Herbs de Provance

 • 2 mæliskeiðar Collagen duft

Aðferð:

 • Blandið saman þurrefnum í eldunarskálinni 5 sek / hraði 5 og því næst eggjum, stevíu og jógúrt eða sýrðum rjóma.
 • Hrærið saman með spaðanum 1 mín / hraði 3.5
 • Látið deigið standa í 10 mín ca og setjið síðan 4 stórar doppur á plötu og bakið í 25 mín á 160°hita með blæstri.