Pizza með geitaosti

Með árunum er ég er orðin meira svag fyrir pizzum með framandi áleggi og svo breyttist eitthvað þegar ég fór að borða lágkolvetna og ég fékk allt í einu æði fyrir geitaosti. Þetta hefur ýtt mér út í allskonar tilraunir og nú síðast bjó ég til pizzu með geitaosti, lauk og basiliku ! Já þetta var ferlega gott og létt í maga en ég notaðist við grunnuppskrift af Fathead deigi en breytti aðeins, auðvitað … Meira að segja eiginmaðurinn var sáttur við þessa, þrátt fyrir að ekkert kjöt væri á henni , né pizzusósa. Það myndi eflaust passa vel að nota beikon á þessa fyrir kjötáhugafólkið.

Innihald Botn:

 • 180 g mosarella ostur
 • 2 msk rjómaostur
 • 60 g möndlumjöl
 • 20 g hörfræmjöl ( má sleppa og bæta við 20 g möndlumjöl)
 • 1 tsk edik
 • 1 egg
 • 1/2 tsk salt

Aðferð:

 • Hitið osta í örbylgjuofni í 30 sek í senn, þar til þeir eru orðnir vel fljótandi.
 • Bætið við eggi, ediki og mjöli og hrærið kröftuglega.
 • Fletjið út á plötu með smjörpappír, pikkið aðeins í deigið með gaffli.
 • Bakið við 200°hita með blæstri í 10-15 mín.

innihald álegg:

 • 5 msk geitaostur
 • sletta af rjóma
 • 1 gulur laukur
 • 2 msk smjör
 • knippi basilika fersk
 • ruccola
 • balsamikedik

aðferð:

 • Þynnið geitaostinn út með rjóma svo hægt sé að smyrja honum á pizzubotninn.
 • Steikið lauk upp úr smjöri þar til hann karmelliserast, hellið dash af balsamikediki yfir.
 • Dreifið ostinum yfir forbakaðann pizzabotninn, setjið laukinn yfir og bakið í 5 mín í ofni, bara rétt til að hita upp.
 • Saxið basiliu yfir ásamt smá ruccola, saltið og piprið og dreifið pínu sykurlausu sýrópi yfir allt ef þið viljið.
 • Þessi er mjög létt í maga og öðruvísi á bragðið.