Pönnupizza – Sweet & Spicy

Já það er pizza á Dominos sem kallast Sweet & Spicy sem er syndsamlega góð en hvað gerir kona sem borðar ekki hveiti og dauðlangar í pönnupizzu með þessu geggjaða áleggi, pepperoni, rjómaosti, rauðlauk, ferskum chili og döðlum… og halló döðlur !!! það er no no á lágkolvetna svo ég bretti upp hugvitsermarnar og hófst handa við að umbreyta svo ég gæti notið eins og hinir krakkarnir. Ég ákvað því að nota chorizo ( finnst það betra ) og fiber sýróp sem staðgengla fyrir döðlur og pepperoni. Ég fékk mér springform í IKEA sem er hugsað sem kökuform og fór heim í pizzugerð. Ég prófaði núna að nota Pofiber trefjarnar frá Semper ( fæst í Bónus ) og það heppnaðist vel.

innihald botn:

 • 180 g mosarellaostur
 • 2 msk rjómaostur
 • 60 g möndlumjöl
 • 20 g Pofiber frá Semper, eða hörfræmjöl má nota möndlumjöl líka og þá eru 80 g möndlumjöl í uppskriftinni
 • 1 tsk eplaedik
 • 1 egg
 • 1/2 tsk salt
 • 1/2 tsk vínsteinslyftiduft

aðferð:

 • Hitið osta í örbylgjuofni í 30 sek í senn, þar til þeir eru orðnir vel fljótandi.
 • Bætið við eggi, eplaediki og mjöli og hrærið kröftuglega.
 • Fletjið út í smurt pönnuformið. Pikkið í deigið og setjið nokkra dropa af steikingarolíu t.d. OLIFA á botninn.
 • Bakið við 200°hita með blæstri í 10-15 mín.

aðferð í thermomix:

 • Setjið allt hráefnið í skálina
 • Hrærið deigið 2.30 mín / 70 °/ hraði 2.5
 • Takið deigið upp með sleikju og dreifið á bökunarplötu, gott að nota annan pappír yfir og fletja út.
 • Bakið við 200°hita með blæstri í 10-15 mín.

Álegg:

 • pizzusósa
 • 1/2 rauðlaukur smátt skorinn
 • 6 msk rjómaostur
 • chorizo pylsa eftir smekk eða pepperoni
 • 1/2 ferskur chili rauður
 • Fiber sýróp eftir smekk
 • pizzakrydd
 • mosarella

aðferð:

 • Þegar botninn er gylltur og tilbúinn þá er pizzusósan sett ofan á
 • dreifið álegginu yfir og kryddið
 • osturinn fer síðast á og olíu hellt í mjórri bunu yfir
 • bakið á 220° hita þar til osturinn er gylltur og bubblandi
 • dreifið sýrópinu yfir allt og njótið í botn