Púðursykursmarengs

Hér er kaka sem ég gerði í Thermomix frá a-ö en marengsgerð er bara ótrúlega einföld í vélinni góðu sem ég komst að með aðstoð frá henni Fríðu sem er einnig stoltur eigandi Thermomix. Það er eflaust hægt að gera þennan marengs með vatnsbaði eins og aðrar marengsuppskriftir sem eru með sýrópinu góða en þetta var fáranlega einfalt og kom vel út. Það væri eflaust hægt að prófa dökka sýrópið líka í þessa en ég lét ljósa duga og bætti við Sukrin Gold. Ég steikti svo pekanhnetur upp úr smjöri, sýrópi og rommdropum og það kom skemmtilega út, má þó sleppa og setja t.d. jarðaber í rjómann.

Innihald:

 • 280 ml Fiber sýróp ljóst
 • 90 g eggjahvíta, samsvarar 3 hvítum
 • 20 g Sukrin Gold
 • 1/2 tsk vínsteinslyftiduft
 • 1 tsk vanilludropar

Aðferð:

 • Þrífið vel skálina með ediki til að engin fita leynist í henni.
 • Setjið allt innihald í skálina og stillið á 15 mín / hita 37°/ hraði 4 og notið fiðrildaspaðann eða þeytarann s.s.
 • Leyfið vélinni að vinna og munið að hafa tappann ekki í lokinu.
 • Hitið ofn í 100° með blæstri.
 • Sprautið marengs í doppur, hring eða gerið aflanga 2 botna sem passa á langan kökudisk, kom vel út.
 • Bakið botnana í 2 tíma til að þeir þorni örugglega nóg.

Fylling:

 • 50 g pekanhnetur
 • 20 g smjör
 • 1 tsk rommdropar má sleppa
 • 2 msk dökkt fibersýróp
 • 250 ml rjómi

aðferð:

 • Steikið saxaðar hneturnar upp úr smjöri og fibersýrópi, bætið rommdropum við ef þið viljið og hellið svo blöndunni á smjörpappír.
 • Látið kólna aðeins og dreifið svo kurlinu á marengsbotninn.
 • Setjið þeyttan rjóma yfir og lokið með efri botninum
 • Ég átti til karamellu í frysti sem ég setti í örbylgjuofninn og hitaði, dreifði svo yfir marengsinn.
 • Ég frysti tertuna yfir nótt og tók út daginn eftir og lét standa á borði þar til marengsinn varð linur og geggjaður.