Rabarbarachutney í Thermomix

Það er svo klikkuð uppskriftin að chutneyinu sem ég fékk fyrir mörgum árum hjá heldri vinkonu minni en hún sló algjörlega í gegn hjá öllum sem ég bauð að smakka og var eitthvað allt öðruvísi en því sem maður hefur vanist úr rabarabara. Þessi uppskrift innihélt auðvitað sykur og þurrkaðar aprikósur og slatta af lauk svo ég þurfti að rigga hana aðeins til og viti menn, sætan frá Sweet like sugar kom æðislega vel út og með smá chili og túrmerik náðist þessi fagurguli litur sem gerir hana bara meira spennó. Hún er sterk og sæt og fullkomin með brie osti, camembert, með fisk, kjúkling og hreinlega hverju sem er.

innihald:

 • 500 g rabarabari, gott að hafa hann frosinn í bitum
 • 1 gulur laukur
 • 2 msk eplaedik
 • 2 og 1/2 dl Sweet like sugar sæta
 • 2 tsk engifermauki í krukku eða um 3 cm af ferskum engifer
 • 1 1/2 msk karrý
 • 1 tsk túrmerik
 • 2 tsk salt
 • 1-2 ferskir chilipipar rauðir, má taka fræin úr en ef þið viljið sterkt þá hafið þá með

aðferð með Thermomix:

 • Setjið laukinn í skálina ásamt, chilipipar, saxið 20 sek/ hraði 4
 • Bætið við engifer, rabarbara og kryddum og saxið 20 sek / 6
 • Bætið við sætunni, salti og eplaedikinu og stillið á 20 mín/ hiti 100°/hraði 1
 • Þegar maukið er orðið vel soðið þá má blanda öllu vel saman í 10 sek/hraði 6
 • Hellið maukinu í fallegar hreinar krukkur og lokið. Geymist vel og lengi í ísskáp.
Geggjað að nota brie ost eða dalahring með þessu chutney