Rautt pestó, klikkað gott

Þegar ég gekk með Nóa minn yngsta sem nú er 16 ára mannbarn þá kynntist ég skemmtilegum hóp kvenna sem voru allar að ganga í gegnum það sama og ég s.s. voru óléttar. Þetta var hinn svokallaði desemberbumbuhópur, sá fyrsti og eini sem ég hef kynnst því þegar ég gekk með eldri börnin þá tíðkaðist ekki að hittast svona á netinu eða í heimahúsum eins og venjan er í dag. Tek fram að ég var með þeim elstu í hópnum, hokin af reynslu haha. Þetta varð reyndar ótrúlega skemmtileg grúppa og áttum við mjög góðar stundir alveg langt frameftir eða þar til börnin hættu að vilja mæta með okkur í hittinga enda orðnir unglingar. Ein af bumbuhópnum varð mér mjög kær fyrir utan hana Sigrúnu mína sem hefur haldið vináttu við mig æ síðan en það er hún Adda og í einum hittingnum fékk ég að smakka geggjað gott pestó sem hún töfraði fram eins og allt annað á hennar smekklega og skipulagða heimili, nei sko ég hef aldrei kynnst annarri eins skipulagsdömu og það er hún enn. Það hafa nú bæst tvær litlar dömur við í fjölskylduna og hún Adda er ein af flottari mömmum sem ég hef kynnst. Jæja allavega, pestóið er svo gott og ég ákvað að deila því hér með sykurlausu twisti að sjálfsögðu. Njótið.

innihald:

 • 1 krukka sólþurrkaðir tómatar með olíu
 • 1 box kokteiltómatar EÐA 1 dós niðursoðnir tómtar t.d. MUTTI
 • 6 hvítlauksrif eða 1 stór solo hvítlaukur án geira
 • 3-4 msk parmesan ostur rifinn
 • 2-3 msk Fiber síróp dökkt, fer eftir sætuþörf
 • salt og pipar

aðferð:

 • Hellið safanum af dósatómötunum og setjið í blandara. Ef þið notið frekar ferska kokteiltómata þá setjið þið þá í eldfast fat í ofn 200°með dálítilli olíu og hitið í 15 mín eða þar til tómatar fara að springa. Setjið bökuðu tómatana í blandarann og látið kólna dálítið.
 • Blandið sólþurrkuðum tómötum saman við og 1/3 af olíunni sem fylgir.
 • Bætið næst við parmesan, hvítlauk og kryddi ásamt sírópinu.
 • Blandið nú allt vel saman í nokkrum skiptum í blandaranum þar til allt hefur blandast vel og er orðið að mauki.
 • Þetta pestó klikkar ekki og er alltaf vinsælast á veisluborðinu.