“Rice crispies” hringur eða smábitar

Sonur minn er tjúllaður í rice crispies kökur og það eru í raun einu sætindin sem hann fær sér. Hann er með ofnæmi fyrir hveiti en vesalings barnið greindist bæði með ofnæmi fyrir hveiti, eggjum og mjólk þegar hann var 7-8 mánaða gamall. Það er ekki auðvelt líf að sniðganga heitar pizzur hjá félögunum eða standast freistinguna þegar farið er í bakarí og lyktin af nýbökuðum snúðum fylla vitin. En hann þarf að sleppa hveitinu og það hefur enn ekki elst af honum. Rice crispies kökur hafa því alltaf verið í uppáhaldi og suðusúkkulaði eina “nammið” sem hann borðar enda finnst meira að segja hveiti í lakkrís. En hvað gerir þá móðir hans, jú breytir uppskriftinni í sykurlausa útgáfu og prófar meira að segja að nota Quinoa puffs í uppskriftina. Hvað er að frétta?

En ég sem sagt prófaði að gera rice crispies hring fyrir afmæli í gær og Katla systir gaf honum fína einkunn og hún er rice crispies perri líka. Ég mæli auðvitað alltaf með að prófa að breyta hefðum því það þarf ekki að troða sykri og sírópi í allt sem börnin eru að háma í sig. Quinoa puffs er með um það bil þriðjungi minna af kolvetnum, hærra í próteini og fitu og að mínu mati enn hollari kostur.

innihald:

 • 80 g ósaltað smjör
 • 150 g Cavalier súkkulaðidropar eða sambærilegt sykurlaust súkkulaði, gott að blanda mjólkursúkkulaði með líka
 • 150 g Sukrin Gold síróp
 • 1/4 tsk sjávarsalt
 • 6 dropar karamellustevía
 • 160 g rice crispies eða Quinoa puffs

aðferð:

 • Hitið síróp, súkkulaði, smjör og salt í potti, hrærið varlega og passið að ekkert brenni við.
 • Blandið þá Rice crispies eða Quinoa puffs út í pottinn og hrærið.
 • Setjið í silikonform, íshringsform, bréfaform eða hvað sem hentar og kælið í dágóða stund.

aðferð Með thermomix:

 • Setjið allt innihald í eldunarskálina.
 • Saxið 20 sek/ hraði 7
 • Hitið svo í 5 mín / hiti 70°/hraði 2
 • Bætið við rice crispies eða quinoa puffs og blandið saman á öfugum snúning, 2 mín / hraði 2
Quinoa puffs fæst í Nettó