Rifsberjasulta í Thermomix

Já sæll, hér beint fyrir utan eldhúsgluggann svigna runnar af rifsberjum og fannst mér tilvalið að skella í rifsberjasultu af því tilefni. Ég notaði Thermomix vélina í verkið en að sjálfsögðu er hægt að nota venjulegan skaftpott í verkið. Ég neita því þó ekki að Thermoelskan mín einfaldar mér verkin og sérstaklega við svona mauk, og sultugerð, ekkert sull eða neitt og malar hún sætuna fyrir mig í leiðinni. En hér er uppskriftin góða, ég notaði matarlímsblöð en þeir sem vilja það síður geta reynt sig áfram með Xanthan gum eða chia fræjum. Ég notaði nýju sætuna frá Nick´s í verkið að þessu sinni en hún er blanda af Erythritoli og Xylitoli en hið síðarnefnda á að hindra það að matvara kristallist þegar hún kólnar, sjáum hvort það stenst.

innihald:

 • 600 g rifsber með stilkunum
 • 150 g sæta, ég notaði Nicks 100% sugar replacement.
 • 6 blöð matarlím
 • 1 msk sítrónusafi

aðferð með Thermomix:

 • Setjið ber í skálina og hitið 10 mín / 100° / sleifarhraði öfugur snúningur
 • Setjið matarlím í kalt vatn og látið mýkjast upp.
 • Hrærið í berjunum eftir suðuna, 10 sek/ hraði 6
 • Hellið berjum í grisju og kreistið vökvann yfir í skál, það má láta vökvann renna í gegnum síu yfir nótt en ég nennti því ekki.
 • Setjið sætuna í hreina eldunarskálina og malið 10 sek/ hraði 10
 • Hellið berjablöndunni saman við og sítrónusafa, kreistið matarlímsblöðin og bætið saman við.
 • Sjóðið upp 10 mín / 100°/ hraði 2
 • Hellið sultunni í hreinar krukkur og lokið.
Hér er svo ljómandi fín uppskrift af vöfflum https://mariakrista.com/vofflur-svona-typiskar/