Rjómabollur

Þá er það stóra rjómabollumálið. Það fer að líða að bolludeginum og ekki seinna vænna en að æfa sig í bollugerð svo maður falli ekki í einhverjar freistingar. Ég hef birt hér áður uppskrift af rjómabollum með kollageni sem eru mjög góðar en hér nota ég vörur frá Funksjonell eingöngu og koma þær einnig mjög vel út. Ég laumaði smá vanilludropum í deigið til að braðgbæta og er ægilega ánægð með bragðið.

innihald bollur:

 • 230 g vatn
 • 115 g smjör
 • 1 msk Sukrin Melis
 • 1/2 tsk salt
 • 55 g möndlumjöl Funksjonell fínmalað, fituskert virkar best
 • 25 g kókoshveiti Funksjonell eða nota eingöngu möndlumjöl þá 95 g í heildina
 • 1 kúfuð tsk Xanthan gum
 • 3 meðalstór egg, pískuð
 • 1 tsk vanilludropar
 • 1 tsk af vínsteinslyftidufti ef fólk vill

aðferð:

 • Hitið vatn í potti ásamt smjöri, sætu og salti.
 • Þegar vatnið er við suðu þá er þurrefnum bætt saman við , möndlumjöli, kókoshveiti og xanthan gum. Hrærið kröftulega með sleif, best að nota trésleif og takið svo pottinn af hellunni. Hér má færa deigið yfir í hrærivélaskál eða nota handþeytara í næstu skref.
 • Meðan deigið kólnar er gott að píska eggin saman í annarri skál.
 • Þegar deigið er orðið sæmilega volgt, þarf að vera hægt að snerta með fingrunum þá er eggjablöndunni bætt í smá saman og hrært vel á milli. Deigið á ekki að renna alveg út heldur halda formuðum toppum ef mögulegt er.
 • Látið nú deigið í sprautupoka og látið standa í ca 15 mín á meðan ofninn hitnar í 200° Það má líka hvíla deigið í skálinni og nota síðan 2 skeiðar til að móta bollur.
 • Sprautið næst fallegum bollum á plötu eða notið tvær matskeiðar til að raða upp bollum á plötuna. Þetta deig gerir um ca 10 meðalstórar bollur.
 • Bakið bollurnar í 20-25 mín ca á 200° með blæstri í miðjum ofni og ekki opna allavega fyrstu 18 mín. Best er að opna sem minnst ofninn svo bollurnar falli ekki.
 • Látið bollurnar kólna í ofninum með hurðina hálfopna. Þegar þær hafa kólnað þá skerið þið varlega í helminga og fyllið með rjóma og sultu eða því sem hugurinn girnist.

Glassúr:

 • 2 dl fínmöluð sæta
 • 2 msk kakó
 • 1 msk mct olía
 • soðið vatn eða kaffi
 • örlítið af möndludropum

aðferð:

 • Blandið saman sætu og kakói, þynnið svo glassúrinn með mct olíu, og litlum skömmtum af soðnu vatni eða kaffi. Alls ekki setja of mikið, bara 2-3 msk fyrst og bæta svo í ef þarf.
 • Mér finnst gott að setja örfáa möndludropa út í en það má sleppa því.
Smá bollukennsla allt gert í potti, má færa yfir í skál líka.
Hvenær fæ ég að smakka ?