Rjómarönd með karamellusósu

Já hjálpi mér.. rjómarönd, það er víst merkilegur desert sem er ómissandi á ansi mörgum veisluborðum og fékk ég fyrirspurn frá einni vinkonu sem bað mig um ábendingar varðandi það að breyta hefðbundinni uppskrift. Það er svo sem lítið sem þarf að gera nema svissa út sykrinum og eru nokkrar uppskriftir af rjómarönd í gangi sem fólk elskar eflaust mest hver fyrir sig. Þessa uppskrift sá ég á síðunni hanna.is en hún er með ofsalega flott matarblogg með endalaust girnilegum uppskriftum og þar á meðal þessi rjómarönd. Ég tók mér það bessaleyfi að birta hana hér aftur í örlítið breyttri mynd en ég notaði auðvitað ekki sykur í mína.

innihald:

 • 2 egg
 • 3 msk Sukrin gold eða Sweet like sugar
 • 500 ml rjómi, má nota laktósafríann
 • ½ vanillustöng frekar nauðsynlegt
 • 4 blöð matarlím
 • 1 dl rjómi – þeyttur

aðferð:

 • Skerið hálfa vanillustöng í tvennt og setjið í pott ásamt rjómanum. Hitið þar til rjóminn fer að krauma við vægan hita í 10 mín.
 • Leggið matarlímsblöðin í bleyti í köldu vatn, ca 5 mín.
 • Veiðið nú vanillustöngina úr pottinum og skafið fræ innan úr og blandið þeim við rjómann.
 • Bætið nú matarlíminu sem búið er að kreista mesta vatnið úr í rjómablönduna og hrærið. Takið pottinn af og kælið niður rjómann.
 • Þeytið rjómann og geymið.
 • Þeytið egg og sætu saman þar til létt og ljóst.
 • Hellið eggjablöndunni nú saman við rjómann og komið pottinum aftur fyrir á hellunni. Hitið á vægum hita og hrærið þar til blandan fer að þykkna, passið að sjóða ekki samt því þá verður rjómaröndinn kornótt.
 • Blandið að lokuð þeyttum rjóma við eggjarjómann og hellið í form. Gott að nota hringform það er fallegt, t.d. frá Tupperware.
 • Kælið í nokkra klukkutíma, helst í sólarhring.
 • Til að ná rjómaröndinni úr forminu er gott að hella smá volgu vatni yfir formið þar til hún losnar, ekki of heitu þó.

karamellusósa:

 • 140 ml rjómi
 • 120 g Sukrin Fiber Syrup Gold
 • 25 g smjör
 • 1/8 tsk salt
 • 1 tsk sítrónusafi
 • 20 g Sukrin Melis
 • 1/2-1 tsk vanilla
 • 1 msk koníak, má sleppa

aðferð:

 • Setjið sírópið í pott og látið hitna, ekki fara frá pottinum. Þegar það lyktin fer að minna á karamellu þá er smjörinu bætt snöggt saman við og látið bráðna í heitu sírópinu og þar næst rjómanum og sítrónusafa.
 • Hrærið síðan í varlega og fylgist með að karamellan sjóði ekki upp úr.
 • Látið sósuna krauma í um 20 mín á jöfnum hita. Fylgist með svo hitinn sveiflist ekki um of.
 • Takið pottinn af hellunni eftir um 20 mín og setjið Sukrin Melis saman við eða aðra fínmalaða sætu. Hrærið og bragðbætið með vanillu og /eða koníaki.
 • Hægt er að bera þessa sósu fram með tertum, vöfflum, ís, rjómarönd eða hverju sem er í rauninni.
 • Ef þið eigið Thermomix þá er hægt að setja allt innihald í skálina og stilla á 25 mín / VAROMA/ hraði 0.5 eða sleifarsnúning og hafa ekki lokið í skálinni, ágætt að setja körfuna yfir gatið og fylgjast með, ef sósan þykknar of mikið má bæta við 3 tsk vatni.
Formið er frá Tupperware